139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann kom inn á það í upphafi ræðunnar hvernig hæstv. forsætisráðherra talaði oft og tíðum um greinina. Hverja telur hann ástæðuna fyrir því að hæstv. ráðherra talar svona, hæstv. forsætisráðherra landsins, alltaf niður til þessarar atvinnugreinar og þeirra sem starfa í henni? Ég spyr sérstaklega í ljósi þess að það ætti frekar að vera hlutverk hæstv. forsætisráðherra að reyna að sameina þjóðina eftir þær hörmungar sem við höfum gengið í gegnum en að ala stöðugt á sundurlyndi og úlfúð. Telur hv. þingmaður ástæðuna fyrir því geta verið þá að það henti hæstv. forsætisráðherra Samfylkingarinnar að vera með sjávarútveginn í uppnámi og hafa uppi gífuryrði um hann?

Hv. þingmaður kom líka inn á mikilvægi sjávarútvegsins í Norðausturkjördæmi og sagði að þingmennirnir hefðu átt fund með forustumönnum sjávarútvegsins í kjördæmi hans bara rétt fyrir þingfund. Hver voru viðbrögð hv. stjórnarþingmanna þegar menn lýstu því hvaða áhrif þetta hefði á þennan landshluta? Fannst hv. þingmanni að hv. stjórnarþingmenn væru búnir að gera sér grein fyrir öllum þeim afleiðingum sem þetta gæti haft? Eins og hv. þingmaður benti réttilega á í ræðu sinni á eftir að gera hagfræðilega úttekt á frumvarpinu og líka hvaða áhrif það hefur á viðkomandi sveitarfélög og landsbyggðina.

Þegar þetta allt er lagt saman, hækkun á auðlindagjaldinu, fyrningin, aukning í pottana, getur þá hv. þingmaður tekið undir það með mér að það muni vera mjög þungt (Forseti hringir.) fyrir sjávarútveginn að standa undir öllum þessum breytingum á sama tíma?