139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er rétt sem kom fram hjá honum, þingmenn Norðausturkjördæmis áttu mjög upplýsandi fund með forsvarsmönnum útgerðar og fiskvinnslu á Austfjörðum, þetta voru forsvarsmenn í Útvegsmannafélagi Austurlands. Þær upplýsingar sem voru bornar á borð fyrir okkur voru mjög sláandi. Það er ljóst að ef svo fer fram sem horfir, að það frumvarp sem hér er til umræðu gangi eftir óbrjálað, eins og sagt er, mun það hafa gríðarlega mikil áhrif á allt atvinnulíf á Austurlandi og ekki bara í sjávarútvegi. Það liggur fyrir að hlutdeild Austfjarða í störfum tengdum sjávarútvegi er gríðarlega mikil og afleidd störf á landinu í heild í dag eru um 30 þús. sem byggja á sjávarútvegi þannig að þetta er gríðarlega mikilvægur atvinnuvegur hvernig svo sem við nálgumst það spurningarmerki sem menn setja við áformin í þeim tillögum sem liggja fyrir í þessu frumvarpi.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi áðan sem einn punkt að hann mæltist til þess að veiðiheimildir í norsk-íslenska síldarstofninn yrðu settar í pott og endurúthlutað. Það er vissulega sjónarmið sem heyrðist á fundinum frá einum forsvarsmanni þar en ég vildi gjarnan heyra frá hv. þingmanni með hvaða hætti hann sæi þá úthlutun eiga sér stað og hvaða áhrif hann mæti af þeirri gjörð á atvinnurekstur á milli byggðarlaga eða þá, í stærra samhengi, þjóðarinnar allrar. Hvaða ábata ætlar hann að ná fyrir þjóðina ef þetta verður gert með þeim hætti (Forseti hringir.) sem hann talar um?