139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil staldra aðeins við þessa áherslu hv. þingmanns á það sjónarmið að setja norsk-íslensku síldina í pott. Þetta er stofn sem við erum að veiða úr samkvæmt samningi og með einhverjum hætti verða menn þá að svara því hvaða ábati á að verða af þessu. Ég tók eftir því hjá hv. þingmanni, ef hann leggur við hlustir, að hann hefur stóran fyrirvara á strandveiðunum. Ég deili alveg þeim fyrirvara með hv. þingmanni en hins vegar hafa tillögur Framsóknarflokksins vakið gríðarlega athygli hér í umræðunni um þessi mál. Þeim hefur verið hælt (BJJ: Réttilega.) og það réttilega, segir hv. varaformaður flokksins úr hliðarsal. Þar er mjög mikið lagt upp úr strandveiðum sem nýliðapotti og nýsköpun er líka mjög ítrekuð þar þannig að mér finnst þessi sjónarmið hv. þingmanns ekki fara nægilega saman við ályktun landsfundar og áherslur Framsóknarflokksins. Ég (Forseti hringir.) bið hann að skýra þennan mismun örlítið nánar.