139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvatinn að breytingum á sjávarútvegskerfinu er eignarhaldið, það er eignarhaldið og ekkert annað. Menn rugla því stundum saman við framsalið, og reyna að takmarka framsalið, af því að þeim sýnist að hagnaðurinn komi þaðan en það er eignarhaldið sem skiptir máli. Ég lagði reyndar fyrir löngu fram frumvarp um að dreifa kvótanum á alla þjóðina á mjög löngum tíma. Það er kannski spurning um að dusta rykið af því í allri þessari umræðu.

Það er alveg á hreinu, frú forseti, að þetta frumvarp eykur ekki arðsemi greinarinnar, það gerir það ekki. Það mun minnka hana verulega með auknum álögum og takmörkunum. Þar sem sjávarútvegsráðherra fer að deila út og drottna, það er ekki arðsemi. Það er gamaldags vinstrimennska eins og í Sovétríkjunum á sínum tíma, þar sem kapparnir við grænu skrifborðin skipulögðu þjóðfélagið út í hörgul og þóttust hafa meira vit á því en bændurnir sem voru að vinna á akrinum.

Mér sýnist að hér sé verið að stjórna öllu meira og minna ofan frá, frá ráðuneytinu. Þar ætla menn að sitja og víla og díla, láta sveitarfélögin fá þetta, láta þennan útgerðarmann fá þetta, taka af þessum og setja þangað. Reynslan af skipulaginu í Sovétríkjunum segir mér að arðsemin muni ekki aukast við það.