139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sameign þjóðarinnar er í mínum huga afskaplega loðið hugtak. Í fyrsta lagi getur enginn sagt mér hvað sameign er, enginn. Get ég þá sagt að ef þjóðin eigi eitthvað í sameign að hver einstaklingur geti bara farið og náð í sinn hlut? Nei, það er ekki meiningin. Hvað þýðir þessi sameign? Ég bara veit það ekki, enginn hefur getað svarað því. Og hvað þýðir þjóð?

Sumir tala hér alla daga um að þjóð sé það sama og ríki. Það er tvennt gjörsamlega ólíkt. Þegar einstaklingurinn mætir skattstofunni finnst honum alla vega töluverður munur á sér og ríkinu. Ríkið er lögpersóna og alls ekki það sama og þjóð. Enda eru margar þjóðir í sumum ríkjum, í Belgíu eru til dæmis tvær þjóðir. Og sumar þjóðir búa í mörgum ríkjum, eins og Kúrdar. Þjóð er því alls ekki sama og ríki.

Varðandi veiðigjaldið og afstöðu til þess. Ég hef lagt til að það verði skoðað að dreifa kvótanum á hvern einasta einstakling, það er árlegum veiðiheimildum, ekki varanlegum kvóta. Menn mættu síðan selja sín tvö tonn af þorski, sem þeir mega veiða á næsta ári, á markaði. Það yrði algjör markaðsvæðing kerfisins og þá getur enginn sagt annað en að þjóðin sé með kvótann. Þetta mundi gerast á löngum tíma þannig að útgerðin verði ekki mikið vör við það. Á meðan það er ekki komið finnst mér veiðigjaldið ekkert vera óskynsamlegt, alls ekki, ef gjaldið er ekki of hátt, ef það lestar ekki greinina of mikið þannig að hún kikni undan. Það er nefnilega þekkt fyrirbæri að ef menn hlaða alltaf einum og einum steini til viðbótar ofan á hrossið þá kiknar það einhvern tíma.