139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágæta fyrirspurn. [Kliður í þingsal.] Reyndar mun svarið hljóma eins og biluð plata. Ég man þá tíð að frumvörp komu til Alþingis fyrir 1. apríl. Ég man þá tíð að þau voru send til umsagnar með þriggja vikna umsagnarfresti og fengnir voru gestir þegar umsagnirnar lágu fyrir. Þá ræddu menn málin í hörgul í rólegheitum. Ég man þá tíð og þetta er engin lygi, þetta var svona.

Svo kom hrunið og þá var náttúrlega heilmikill hraði því að það var svo mikið að gera. En nú geta menn ekki lengur skákað í því skjólinu. Samt koma hér mál inn með ógurlegum hraða eins og þessi frumvörp án nokkurs samráðs við einn eða neinn. Ekki var rætt við stjórnarandstöðuna um þetta mál, ónei. Ekki var rætt við hagsmunaaðila um þetta mál. Ónei. Kannski var rætt við þá en ekkert var farið eftir því sem þeir sögðu.

Mér sýnist að nánast allir séu á móti þessu, hver og einn einasti. Samt er málið keyrt áfram og við ræðum það hér klukkan tíu, hálfellefu og verðum lengi að, að ræða fyrra frumvarpið. Síðan er málsmeðferðin með ólíkindum, eins og ég gat um í ræðu minni, frumvarpið sem við ræðum hér er tekið úr sambandi við hitt frumvarpið sem ég ræddi ekki. Ég á eftir að ræða þau ósköp sem eru í seinna frumvarpinu, það er miklu, miklu, verra en það fyrra. (BJJ: Og þó er þetta slæmt.) Og þó er það slæmt.

Málsmeðferðin er náttúrlega fyrir neðan allar hellur og þegar málið varðar svo stóran hluta þjóðarinnar og svo stóran hluta af efnahag þjóðarinnar finnst mér þetta vera yfirgengilegt ábyrgðarleysi.