139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri, sem er ekki óeðlilegt, að skiptar skoðanir eru um ákveðna hluti í svo umfangsmiklu kerfi sem fiskveiðistjórnarkerfið er og það er eðlilegt. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið hingað upp og rætt þessi mál af hreinskilni. Við erum ósköp einfaldlega ekki sammála í þessum efnum. Það er ekki þar með sagt að við getum ekki rætt málin yfirvegað og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið svona hreinskilnislega fram í umræðunni. Það væri betra ef hv. stjórnarliðar gerðu slíkt hið sama og við gætum átt í skoðanaskiptum um þessa undirstöðuatvinnugrein sem skiptir 30 þúsund einstaklinga, sem hafa beina eða óbeina atvinnu af sjávarútvegi, máli.

Að lokum vil ég leiðrétta það, frú forseti, að ég fór ekki alveg rétt með það áðan að hv. þm. Helgi Hjörvar, sem er stjórnarliði, er víst búinn að vera lengi á mælendaskrá, ég fullyrti áðan að þar væri enginn. (Forseti hringir.) Það er fagnaðarefni ef einhver stjórnarliði ætlar að koma og taka þátt (Forseti hringir.) í umræðunni með því að ætla að flytja eina almennilega ræðu en ekki stutt andsvar.