139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Mér þykir leitt, virðulegur forseti, að hv. þingmaður hafi misskilið mig svona gjörsamlega. Ég taldi og tel enn að Framsóknarflokkurinn eigi meira sameiginlegt með okkur sjálfstæðismönnum í því að verja það fiskveiðistjórnarkerfi sem nú er við lýði og koma á bragarbót á því en að fara í það miðstýrða tilskipunarkerfi sem núverandi ríkisstjórnarflokkar vilja koma á. Það var það sem ég átti við þegar ég sagði að það væri grundvallarágreiningur milli hægri manna og miðjumanna annars vegar og hins vegar vinstri manna. Ég held að hv. þingmaður hafi gjörsamlega misskilið það sem ég sagði. (BJJ: Það er líka langt liðið á kvöldið.)

Ég hef aldrei litið á Framsóknarflokkinn sem dulu, hvorki til hægri né vinstri. Þetta er sjálfstæður flokkur (Gripið fram í.) með eigin stefnu í sjávarútvegsmálum sem öðrum og það er vel. En hann á miklu meira sameiginlegt með okkur hægri mönnum en nokkurn tíma með því miðstýrða tilskipunarfyrirkomulagi sem hér er verið að reyna að koma á með geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna vítt og breitt um landið. [Frammíköll í þingsal.]