139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti mér ekki til að svara fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni. Í honum eru um 50 þús. manns. Við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins höfum hins vegar rætt það og erum sammála um að auðlindirnar eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Það kann að vera að við höfum einhverja aðra skoðun en fyrri þingflokkar Sjálfstæðisflokksins en ég held ekki. Við erum annar þingflokkur en ég held að löngum hafi ríkt sama skoðunin, sú að auðlindir ættu að vera í eigu þjóðarinnar.

Hv. þingmaður spyr mig hvað ég hefði viljað láta endurskoða í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég nefndi nýtingarréttinn og ég nefndi að það mætti skoða framsalið. Þegar við tölum um að auðlindir eigi að vera í eigu þjóðar tel ég að þá eigi það ekki bara við um sjávarútveginn. Ef við ætlum að ræða hér auðlindagjald verða menn líka að ræða það samhliða gagnvart öðrum auðlindum og hvernig menn ætla að fara með þær. Það getur ekki verið réttmætt að innheimta auðlindagjald af einni atvinnugrein en ekki öðrum. Þá hljóta menn að fara í þá umræðu um allar auðlindir ef mönnum hugnast að fara þessa leið í sjávarútvegi.

Ég er ekki bjartsýn á úthlutun einstakra sveitarstjórnarmanna á byggðakvóta eða eitthvað í þá veru. Ég vil heldur leita einhverra annarra leiða til að úthluta kvóta til landsbyggðarinnar, ef við getum orðað það svo, eða hinna ólíku byggða um landið en að fela það einstaka sveitarstjórnarmönnum. Ég held að pólitísk afskipti með þeim hætti (Forseti hringir.) geti aldrei verið til hagsbóta.