139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn mál nr. 826, hið svokallaða minna frumvarp, um stjórn fiskveiða. Það er athyglisvert — við vorum að ræða það hér í hliðarsölum — hversu fáir stjórnarliðar eru á mælendaskrá. Ég vil þakka þeim stjórnarliðum sem hafa setið undir þessari umræðu og hafa hlýtt á okkur, þar á meðal formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og hv. þm. Magnúsi Orra Schram og fleirum sem eru hér í þinginu og hlusta.

Ég sakna þess að skoðanir stjórnarliða komi ekki fram en vitanlega kunna þær að koma — sumra, fyrirgefið, því að auðvitað hefur formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar talað og nokkrir fleiri. Það er mikilvægt að við fáum að heyra sjónarmið fleiri þingmanna stjórnarmeirihlutans til þess að geta átt þær samræður sem við þurfum að eiga og til að fá skoðanir á einstökum greinum og í raun heildarmynd af því sem hér er teiknað upp varðandi fiskveiðistjórnarkerfið og þessa atvinnugrein.

Töluvert hefur verið rætt um stefnu stjórnmálaflokkanna í þessu sambandi og auðvitað ber eitthvað á milli þegar kemur að því að ræða svo stóra atvinnugrein. Það má hins vegar ekki gleyma því að um margra mánaða skeið starfaði nefnd þar sem fulltrúar stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila — og þegar ég segi hagsmunaaðila er ég með inni í því fulltrúa verkalýðshreyfingar og fleiri — fóru í gegnum helstu álitaefni og lögðu fram ákveðnar breytingar eða tillögur til að byggja á. Því má halda fram að hluti af þeim breytingum eða þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram séu rammi svipaður því sem svokölluð sáttanefnd gerði ráð fyrir. Innihaldið er hins vegar mjög ólíkt því sem þar var fjallað um og mjög ólíkt því sem mörg okkar telja skynsamlegt.

Ég get, frú forseti, ekki tekið undir með þeim sem halda því fram að sjávarútvegurinn og umrædd frumvörp séu eitthvert smámál. Þetta er vitanlega stórmál og þetta er stórmál á svo marga vegu. Þetta er stórmál fyrir atvinnuöryggi þúsunda Íslendinga, þetta er stórmál fyrir efnahag sveitarfélaga og að sjálfsögðu stórmál fyrir efnahag ríkissjóðs.

Fyrir stuttu voru kynnt drög að skýrslu sem verður kynnt í haust um svonefndan Sjávarklasa, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, og áætlað var að hann velti um 300 milljörðum, ef ég man rétt. Þetta er há tala og skiptir miklu máli. Við megum ekki, þingmenn, fara í þá vegferð að keyra hér í gegn — ef það er meiningin, nú ætla ég svo sem ekkert að fullyrða um það — með hraði viðamiklar breytingar á þessari atvinnugrein. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt.

Nú eru mjög fáir dagar eftir af þinginu, þar til því verður frestað, og einnig tiltölulega fáir dagar til stefnu í haust. Ég hefði talið að flestir ættu að gera sér grein fyrir því að með svo viðamikið mál er hæpið að ná lendingu á svo stuttum tíma — það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því, ég er fyrst og fremst að segja það.

Nú vitum við öll að hún styttist umræðan sem lýtur að þessu fyrra máli og ljóst er að það fer til nefndar gangi allt eftir. Það er mikilvægt að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki sér þann tíma sem þarf til að fara yfir þetta mál þó svo að menn telji að það sé lítið í sniðum, hið svokallaða minna mál. Þetta er vitanlega minna í blaðsíðum talið en hins vegar er verið að leggja til mjög miklar breytingar sem lúta meðal annars að veiðigjaldi og útdeilingu á því. Það væri mjög forvitnilegt að heyra hvað stjórnarþingmönnum finnst um þessar tvær greinar í ljósi þeirrar gagnrýni sem þegar hefur komið fram í fjölmiðlum því að ekki hafa hagsmunaaðilar fengið önnur tækifæri til að tjá sig um málið. Sá tími mun hins vegar koma og þá er mikilvægt að hagsmunaaðilum verði gefinn góður tími til að (Forseti hringir.) skila þeim athugasemdum sem þeir vilja skila inn.