139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:04]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég fagna því frumvarpi sem hér er rætt og því síðara sömuleiðis. Við erum að innleiða ákveðna kerfisbreytingu með nýtingarsamningum. Ég hef sagt það áður á opinberum vettvangi að mikilvægt sé að skapa öryggi um þessa mikilvægu grein og þess vegna eigi menn ekki að vera of uppteknir af því að nýtingartíminn sé of stuttur. Við þurfum að skapa öryggi til að menn treysti sér til að fjárfesta enda á lengd nýtingarsamninga sem við erum að innleiða og þessi stóra kerfisbreyting hér með að taka mið af þeim fjárfestingum sem nauðsynlegar eru til að geta nýtt auðlindina.

Ég er hins vegar frekar upptekinn af þeirri breytingu sem lögð er til á veiðigjaldinu og ég er mjög ósammála þeirri nálgun sem lagt er upp með í frumvarpinu. Mig langar að forvitnast um það hjá hv. þingmanni hvort hann sé sammála mér um að meginprinsippið í því að ná fram sátt meðal þjóðarinnar og svala þörf hennar fyrir réttlæti sé að við horfum á upphæð veiðigjaldsins, að við horfum á það hvernig arðinum er skipt, að við náum að miðla afrakstrinum betur milli okkar allra og myndum einhvers konar norskan olíusjóð sem við getum svo nýtt til góðra verkefna víða um land, að það sé kannski það sem við ættum frekar að velta fyrir okkur að ná fram, að ná sátt um með hvaða hætti arðinum er skipt.

Þá mætti kannski hugsa sér þá leið að þegar útgerðin hefði staðið skil á þeim kostnaði sem þyrfti til til að sækja auðlindina, nýta hana og færa björg í bú, þegar menn væru búnir að fá inn fjármuni til að afskrifa þau tæki og tól sem þyrfti til, þá mundum við horfa á þá tölu sem eftir væri og reyna að skipta henni á milli þess sem nýtir og þess sem á, sem er þá þjóðin í því tilviki.

Ég held áfram að tala, frú forseti, því að ég er greinilega á ótímasettri klukku og þakka mikið fyrir það. Ég ætla þá að fá að koma með aðra spurningu til hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Já, ég er að spá í það bara, þakka þér fyrir. (Gripið fram í: Hvernig væri það?) (Gripið fram í: … nóg af þessu …) Nú er tíminn hins vegar alveg að renna út og því ætla ég að geyma seinni spurninguna fram í síðara andsvar. Ég hlakka mikið til að heyra í hv. þingmanni um þetta atriði, réttlætismálið. Er það ekki lykilpunkturinn að horfa á veiðigjaldið og hvernig við skiptum arðinum af auðlindinni á milli okkar allra?