139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega skila ákveðnir hlutar greinarinnar ágætum rekstri í dag, við hljótum að fagna því. Það hefur vitanlega ekki alltaf verið þannig og þessi grein gengur að sjálfsögðu í sveiflum eins og aðrar atvinnugreinar. Ég treysti mér ekki til að fullyrða hvað þessi grein þolir að greiða meira í auðlindagjald en hún gerir í dag. Mér finnst vanta einhverjar úttektir, einhverja mælikvarða sem mæla það hvað útgerðin í heild þolir að greiða.

Það kann vel að vera að hægt sé að auka það töluvert. En mér sýnist á viðbrögðum frá þeim sem starfa í greininni, og ég hef ekki ástæðu til að draga þau í efa, að þetta verði mjög erfitt. (Forseti hringir.) Auðvitað er eignarhald á þessum fyrirtækjum mjög misjafnt og það er misjafnt hvort arðurinn gengur til eigenda eða út í samfélögin, byggðarlögin á svæðunum.