139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann nefndi það í upphafi að hann hefði átt sæti í svokallaðri sáttanefnd og ég gat ekki skilið hann á annan veg en þann, og við erum algjörlega sammála um það, að þau frumvörp sem við ræðum hér séu ekki í samræmi við þá niðurstöðu um vönduð vinnubrögð sem varð þar.

Í sáttanefndinni skapaðist einstakt tækifæri — af 18 aðilum sem sátu í nefndinni skiluðu 16 nánast samdóma áliti, þó að blæbrigðamunur væri á því — og mig langar að spyrja hv. þingmann hvers vegna stjórnarflokkarnir fylgdu því ekki eftir, hver sé hans skoðun á því. Af hverju fylgdu menn því ekki eftir?

Eru mál kannski þannig vaxin að stjórnmálaöflin hér inni, sum hver, vilja ekki ná sátt í sjávarútveginum? Hentar það þeim pólitískt að vera með upphrópanir og slagorðaflaum eins og hæstv. forsætisráðherra hefur verið með? Getur verið að það sé enginn vilji til að ná sátt um sjávarútveginn vegna þess að slíkt þjónar betur pólitískum hagsmunum?

Mig langar líka aðeins að spyrja hv. þingmann út í það sem kemur fram í frumvarpinu og því sem á eftir kemur. Hv. þingmaður býr á Sauðárkróki. Mér er minnisstætt þegar okkur voru kynnt þau áhrif sem skerðingar undanfarinna ára hafa haft á þann gríðarlega mikilvæga vinnustað sem Fiskiðjan á Sauðárkróki er. Þar gerðu menn sér vonir um og stóðu í þeirri trú að þegar bætt yrði við aflaheimildir kæmi eitthvað af því til baka, og ekki síst í ljósi þess hve greinileg merki voru um þau áhrif sem þessar skerðingar höfðu á sveitarfélagið og skatttekjur þess.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því að (Forseti hringir.) þetta gangi þá ekki til þeirra sem tóku á sig skerðingarnar.