139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi þótti mér afar slæmt að ekki skyldi byggt á tillögum hinnar svokölluðu sáttanefndar. Það var alveg ljóst að menn lögðu töluvert mikið á sig og allir gáfu eftir í þeirri vinnu, slógu af skoðunum sínum og prinsippum, þar á meðal útvegsmenn sem hurfu úr nefndinni um tíma en komu aftur. Það var merkilegt skref, að mér fannst, þegar það gerðist.

Ég tek undir tóninn í orðum hv. þingmanns hvað það varðar að ákveðnir aðilar vilji helst hafa hávaða og rifrildi um sjávarútveginn. Ég sakna þess mjög að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera við þessa umræðu miðað við hve oft hún nýtir tækifærið til að ræða um sjávarútveginn. Það er mjög merkilegt að ráðherrann skuli ekki sitja og hlusta á þessa umræðu og blanda sér í hana, það er mjög merkilegt.

Varðandi þær skerðingar sem hv. þingmaður nefndi er það vitanlega þannig, af því að hann nefndi hér ákveðið fyrirtæki, að fyrir nokkrum árum kaupir það fyrirtæki annað fyrirtæki í sjávarútvegi innan þess lagaramma sem hér var skapaður og Alþingi samþykkti. Stuttu seinna var farið í að skerða aflaheimildir og af því fyrirtæki voru aflaheimildir skornar niður um rúm 2.500 tonn ef ég man rétt, 2.400 tonn. Eftir situr fyrirtækið með allar skuldirnar sem það stofnaði til þegar það keypti hitt fyrirtækið og það var að sjálfsögðu gert til þess að reyna að auka hagkvæmni í greininni sem menn höfðu verið að kalla eftir.

Það er vitanlega óásættanlegt að þetta fyrirtæki og öll önnur, hvort sem það er einn karl með trillu eða stórt útgerðarfyrirtæki, fái þessar skerðingar ekki bættar að einhverju leyti, jafnvel að meira leyti finnst mér en minna. Ég er ekki viss um að sátt náist um að bæta þær að fullu en hins vegar verða að koma einhvers konar bætur (Forseti hringir.) fyrir þessar skerðingar. Það er ekki hægt að réttlæta að menn sitji bara eftir með þessar skuldir.