139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar aðeins að halda áfram með það sem hv. þingmaður sagði um að það yrði að sjálfsögðu að bæta að hluta til þær skerðingar sem menn urðu fyrir. Kannski ekki að öllu leyti, sagði hv. þingmaður. Nú erum við með úthlutunina nánast í sögulegu lágmarki. Það er verið að bæta við 8 þús. tonnum í byggðakvóta og strandveiðar og 8.400 tonnum í þorski. Hvað finnst hv. þingmanni þegar heildarúthlutunin fer yfir 160 þús. tonn? Það er mjög lág tala því að meðaltalsveiðin undanfarin 20 ár er í kringum 210 þús. tonn. Hefði ekki verið eðlilegra að hafa viðmiðið hærra? Það væri þá sanngjarnari og eðlilegri tala og eins og hugsunin er tækju menn þá þessar viðbótarúthlutanir inn í þessa potta. Væri ekki eðlilegt að hafa þessi viðmiðunarmörk hærri þannig að sannarlega fengju þá þeir sem, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, tóku á sig hagræðinguna með því að kaupa önnur fyrirtæki út úr rekstrinum til baka eitthvað af því sem þeir tóku (Forseti hringir.) á sig en sætu ekki uppi með skuldirnar eins og hv. þingmaður bendir réttilega á.