139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurningarnar. Ég get ekki svarað því alveg hreint út hvort þarna sé skýr bótaskylda en, jú, ég tel miklar líkur á því. Við sáum svo sem í þessari sáttanefnd misvísandi hugmyndir um það hvort til dæmis hefði myndast einhvers konar eignarréttur á aflaheimildum. Það eru ekki allir sammála um það en það er alveg ljóst að náist ekki samningar verður látið reyna á slíkt fyrir dómstólum. Ég trúi því ekki að það sé vilji ríkisvaldsins að leggja út í þá vegferð, hvort sem það er gagnvart litlum eða stórum handhöfum aflaheimilda eða gagnvart atvinnurétti einstaklinga um allt land.

Ég get ekki ímyndað mér og trúi því ekki að ríkisvaldið vilji fara í þá vegferð. Þess vegna hljótum við, og ekki síst stjórnarflokkarnir, að leggja mikið upp úr því að ná samkomulagi og sátt um þessa atvinnugrein og þessar tillögur.