139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:36]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég vek athygli hans á því að ég er á mælendaskrá og mun taka þátt í umræðunni þótt síðar verði.

Mig langar að ræða hér aðeins nálgun Framsóknarflokksins því að ef maður les ályktun hans um sjávarútvegsmál nálgast hann verkefnið með ótrúlega líkum hætti og gert er í þessu frumvarpi. Í ályktun Framsóknarflokksins er talað um nýtingarsamninga til 20 ára, ákvæði um veiðiskyldu, takmarkað framsal, takmarkanir á veðsetningu, að greitt sé fyrir nýtingarréttinn. Þarna er talað um byggðaívilnun, strandveiðar, nýsköpunarþáttinn og meira að segja um að hluti veiðigjaldsins eða auðlindarentunnar renni til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til. Að mörgu leyti er Framsóknarflokkurinn nær hv. sjávarútvegsráðherra en sá sem hér stendur í útfærslu sinni á nýju fiskveiðistjórnarkerfi.

Ég spyr: Er þá nokkuð til setunnar boðið með að málið fari inn í nefnd og við náum að samstilla, fínstilla þessa nálgun Framsóknarflokksins og nálgun ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) eða nálgun Samfylkingarinnar og nálgun Vinstri grænna og mótum í sameiningu nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp sem mætir (Forseti hringir.) þessum ólíku sjónarmiðum?