139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:39]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hinn fullkomni lýðræðislegi farvegur að þetta mál fari inn í þingnefnd þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar fá að setja mark sitt á það með lýðræðislegum hætti, þar sem leitað er umsagna hagsmunaaðila og gerðar þær úttektir sem menn telja rétt að gerðar séu á málinu og við gefum okkur nægan og góðan tíma til að fjalla um málið mjög efnislega og gerum á því þær breytingar sem við náum samkomulagi um. Það held ég að sé hinn besti lýðræðislegi farvegur á málinu. Nú höfum við einhvern pappír til að takast á um, til að rýna, til að skoða og gera betur. Það er kosturinn við að málið er komið fram og við getum talað um það í þingsölum. Hv. þingmaður veit að þegar þingnefndir taka sig saman og vinna efnislega að sameiginlegu markmiði geta þær komið ótrúlegustu hlutum í verk.

Þess vegna tel ég að þetta mál eigi að komast til nefndar og fá sinn meðgöngutíma í sumar þannig að við getum gert þær breytingar sem þarf til og náð saman um þessi atriði, hvort sem það er útfærsla veiðigjalds, strandveiði, byggðapottur, ívilnun eða hvernig við dreifum, sem ég tel vera aðalatriðið, arðinum af auðlindinni meðal þjóðarinnar.