139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Efnahagsvandi Íslands er fyrst og fremst skuldavandi, hvort sem litið er til ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja eða heimila. Að öðru leyti er Ísland, eða var að minnsta kosti áður en ríkisstjórnin tók við, vel í stakk búið til að takast á við nauðsynlega uppbyggingu. Innviðir eru sterkir eða þeir voru það þangað til núverandi ríkisstjórn hóf að vega að grundvallarinnviðum samfélagsins og gera því erfiðara að byggja upp efnahagslega. En það er ekki til umræðu hér heldur skuldamálin og þau tækifæri sem eru eða voru til staðar til þess að vinna bug á meginvandanum, í raun eina stóra efnahagsvandanum sem að okkur steðjaði. Það var nefnilega einstakt tækifæri til þess þegar bankarnir féllu. Ísland hafði þá verið efnahagslega afskrifað. Því var lýst yfir um allan heim að Ísland væri gjaldþrota og íslenskir bankar gjaldþrota, bankar í gjaldþrota landi. Við þessar aðstæður voru neyðarlögin sett sem var mjög djörf aðgerð. Mjög djörf en nauðsynleg og vel réttlætanleg eins og betur og betur hefur verið að koma í ljós. Þá hófst ferli sem var hins vegar aldrei klárað. Hugað var að eignahliðinni, að verja eignirnar eins og kostur var við þær aðstæður sem þá ríktu, en það skref var ekki stigið til fulls, ekki var hugað að skuldum.

Hæstv. fjármálaráðherra segist telja ólíklegt að það hefði verið gert jafnvel þó ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði setið áfram. Það kann að vera rétt enda var líklega meginástæða fyrir falli þeirrar ríkisstjórnar þær tafir sem urðu á því að ráðast í seinni hluta nauðsynlegra aðgerða og takast á við skuldavandann. Þegar í byrjun árs 2009 töldu menn að þar mætti engan tíma missa, ekki mættu líða margir dagar, hvað þá margar vikur. Við þær aðstæður féll ríkisstjórnin sem þá sat. Í framhaldinu hefði maður reyndar viljað sjá meiri stuðning frá Sjálfstæðisflokknum við nauðsynlegar aðgerðir í skuldamálum í ljósi þess að sá flokkur hafði haft forustu um að ráðast í setningu neyðarlaganna. Ég vil þó nefna sérstaklega hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson sem sýndi því máli áhuga strax frá byrjun og reyndar líka hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Lilja Mósesdóttir.

En tækifærin voru ekki nýtt á þeim tíma. Tilfærsla, sem hæstv. fjármálaráðherra kallar svo, var möguleg og mjög vel réttlætanleg vegna þess að á þeim tíma voru eignasöfn bankanna ákaflega lágt metin. Hvað sem líður mati Deloitte og Wymans sem í sjálfu sér hefði réttlætt töluvert meiri niðurfærslu en raunin varð, eins og fram hefur komið, hefði mátt líta til markaðarins vegna þess að hinn frjálsi markaður gerði bönkunum kleift að stofna til þeirra skulda sem síðan felldu þá. Þeir fóru óvarlega og féllu fyrir vikið. En hvað sagði markaðurinn í framhaldinu? Hann mat þessa banka nánast einskis virði. Skuldabréf í bönkunum voru keypt og seld á 1, 2 og 3% að nafnvirði í mörgum tilvikum á þessum tíma. Á sama tíma voru lánasöfn banka í Bandaríkjunum og Bretlandi sem höfðu lent í skipbroti seld á broti af nafnvirði. Það var því fullkomlega réttlætanlegt fyrir ríkið að færa þessi lánasöfn, m.a. fasteignalán, yfir með verulegri afskrift og láta þá afskrift ganga að minnsta kosti að hluta áfram til þeirra sem skulduðu. Það hefði líka verið siðferðislega rétt vegna þess að skuldirnar höfðu hækkað töluvert vegna óeðlilegra vinnubragða bankanna. Bæði lagalega og siðferðislega hefði það verið rétt niðurstaða.

Hversu miklu hefði munað? Það sem var undir hjá bönkunum á sínum tíma að núvirði, ætli það nálgist ekki hátt í 20.000 milljarða kr. Nokkur hundruð til viðbótar af þessum 20.000 milljörðum hefðu skipt sköpum fyrir íslensk heimili og íslensk fyrirtæki. Eins og ég fór yfir áðan hefði það verið framkvæmanlegt og réttlætanlegt. Nú segir hæstv. fjármálaráðherra að það vald hafi ekki verið í höndum ríkisstjórnarinnar. Slíkt hefði verið miklu minni aðgerð en fólst í neyðarlögunum. Menn hefðu verið að ganga mun skemur á hlut kröfuhafa en gert var með neyðarlögunum með því að huga að skuldahliðinni.

Hæstv. fjármálaráðherra segir líka að menn hafi viljað forðast málaferli og viljað væntanlega, eins og kom sérstaklega fram í máli hæstv. efnahagsráðherra, ganga í augun á alþjóðasamfélaginu sem er með aðsetur í Brussel að mati efnahagsráðherra. Á þessu byggðust ákvarðanirnar, annars vegar að gleðja þetta svokallaða alþjóðasamfélag sem er þröngt skilgreint af ríkisstjórninni og hins vegar að forðast málaferli. En forðuðust menn málaferli með þessari niðurstöðu? Aldeilis ekki. Í gangi eru málaferli um allt vegna þeirra aðgerða sem ráðist var í þannig að ekki varð með nokkru móti komið í veg fyrir slíkt.

Þá að eiginfjárframlagi ríkisins sem hæstv. ráðherrum var tíðrætt um áðan. Það er svolítið erfitt að ræða það þegar hæstv. fjármálaráðherra kemst í mótsögn við sjálfan sig, meira að segja í ræðu sinni áðan, þegar hann lýsir því að þetta sé ákaflega góð fjárfesting, skili ríkinu miklum vaxtatekjum og tryggingarnar séu góðar. Af því má ætla að ríkið hafi tapað á því að setja ekki 200 milljörðum meira inn í bankana. (Gripið fram í.) Annars vegar tala menn um mikinn sparnað, 200 milljarða, með því að leggja bönkunum til minna eigið fé, hins vegar mikinn hagnað af því sem ríkið þó lagði í bankana. Svoleiðis að rökin um eiginfjárframlagið halda ekki vatni frekar en annað.

Ástæða er til að vekja athygli á því að þingflokkur framsóknarmanna lagði fram tillögur, ekki aðeins um úrvinnslu skuldamálanna, heldur líka hvernig mætti standa að því að stofna nýju bankana og gera þá strax betur í stakk búna til að sinna hlutverki sínu sem bankar, lána fjármagn til atvinnuuppbyggingar. Þeir virðast enn ekki vera farnir að sinna því hlutverki sem skyldi enda eru mörg þúsund heimili og fyrirtæki í algjörri óvissu í bankakerfinu með skuldir sínar. Tveimur og hálfu ári eftir efnahagshrunið ríkir enn algjör óvissa um þessa hluti. Fyrir vikið hefur íslenskt efnahagslíf staðnað á meðan efnahagslíf flestra ríkja í kringum okkur, jafnvel þeirra sem lentu í verulegri kreppu, hefur verið að rétta úr kútnum, a.m.k. hagvöxtur að mælast.

Ég vil í lokin nefna eitt atriði til viðbótar sem fram kemur í þessari merku skýrslu þó að mörgum nái ég ekki að sinna í þessari ræðu. Þar kemur skýrt fram að frá upphafi var litið á breska og hollenska ríkið sem meginkröfuhafa Landsbankans og í rauninni eiginlega meginkröfuhafa bankakerfisins. Frá byrjun er litið á breska og hollenska ríkið sem meginkröfuhafana. Með öðrum orðum, menn litu ekki svo á að íslenska ríkið eða íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn væri kröfuhafinn. Nei, það var breska og hollenska ríkið frá upphafi eins og eðlilegt er. En þrátt fyrir það hófst hér tveggja ára stríð, tveggja ára barátta ríkisstjórnarinnar við að færa þessar kröfur sem þeir höfðu þá þegar samið um við Breta og Hollendinga yfir á íslenskan almenning. Þetta er því miður eftir öðru í vinnubrögðunum sem lýst er í skýrslunni og við höfum séð opinberast smátt og smátt á undanförnum árum. Löngu er orðið tímabært að verulegur viðsnúningur verði þar á.