139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar maður hlustar á það sem kemur fram í þessari umræðu og við lestur skýrslu hæstv. fjármálaráðherra er sú hugsun mér efst í huga hversu lítið við höfum lært. Skýrsla fjármálaráðherra staðfestir að það er verið að nota sömu aðferðafræðina og þegar verið var að semja um Icesave. Hún sýnir líka og sannar hversu mikilvæg lýðræðisleg umræða er, það er ástæðan fyrir því að Alþingi er eins og það er, að hér leggjum við fram mál og við tökum umræðuna, við hlustum á sjónarmið annarra og tökum síðan ákvörðun í framhaldi af því. Skýrsla hæstv. fjármálaráðherra staðfestir gallana við að gera þetta ekki. Hún staðfestir hættuna við það að gefa framkvæmdarvaldinu of mikið vald yfir svona stórum ákvörðunum, að það geti tekið jafnstórar og mikilvægar ákvarðanir án þess að það fari nokkurn tíma fram umræða innan veggja þingsins um hvort þetta sé rétta leiðin eða ekki.

Hæstv. fjármálaráðherra fór líka í gegnum það að nákvæmlega sömu aðilar og töluðu fyrir því að best væri að skrifa undir skuldbindingar upp á hundruð milljarða í vaxtakostnað ráðlögðu líka varðandi uppgjör bankanna, fjármálaráðuneytið, Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, og svo tróðu menn Fjármálaeftirlitinu líka þarna inn.

Ef við rifjum upp hvernig okkur var tilkynnt um þessar ákvarðanir þá var haldinn blaðamannafundur og stuttu áður fengu þingmenn að vita að ætlunin væri að gera þetta. Sú sem hér stendur tók þá ákvörðun að mæta á þann blaðamannafund vegna þess að það virtist vera eina leiðin sem þingmaður, sem kjörinn fulltrúi þjóðarinnar, að fá einhverjar upplýsingar um hvað væri nákvæmlega verið að gera. Maður hafði heyrt orðróm, maður hafði heyrt sögur, maður hafi reynt að spyrjast fyrir í þinginu, maður hafði reynt að spyrjast fyrir í nefndastarfi, en besta leiðin virtist vera að mæta á blaðamannafund og spyrja þá beint sem voru að semja við kröfuhafana. Og þar, eins og kemur fram í þessari skýrslu, hafði maður því miður rétt fyrir sér, að það voru teknar ákvarðanir sem að mínu mati voru einstaklega óskynsamlegar.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór í gegnum það í ræðu sinni að þetta hefði verið besta mögulega ákvörðun sem hægt var að taka og það sæjum við núna á hinum endurreistu bönkum. Í þingsályktunartillögu sem við framsóknarmenn lögðum fram fyrir tveimur árum, eina tillagan sem komið hefur inn í þingið þar sem rædd er hugmyndafræði um hvernig við eigum að endurreisa bankakerfið, töluðum við um að nýju bankarnir verði of stórir með lág meðalgæði á lánasöfnunum, við töluðum um að þeir verði illa samstilltir, það verði mikil áhætta hjá Seðlabankanum í viðskiptum við bankana, þeir muni illa geta þjónað fyrirtækjum og nú getum við bætt við heimilunum, og það verði gífurlega miklir hagsmunaárekstrar við það fyrirkomulag sem þarna verði sett upp. Við færðum líka rök fyrir því að það væri hægt að leggja fram minni fjármuni en áður hafði verið áætlað eða 248 milljarða og jafnvel ef við mundum endurreisa betri banka væri möguleiki að lækka eiginfjárkröfuna frá FME niður í 8%. Allt þetta var hunsað.

Það sem mér er efst í huga hér er að hæstv. fjármálaráðherra gerði sömu mistök og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í aðdraganda hrunsins, að þeir ræddu ekki hlutina, þeir töluðu ekki um hvað ætti að gera. Þeir höfðu ekki einu sinni vit á því að tala við sína eigin stuðningsmenn um það sem þeir voru að gera.