139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að svara ákalli hæstv. fjármálaráðherra og þakka honum kærlega fyrir þessa skýrslu og fyrir það tækifæri að fá að ræða hana hérna, og þótt fyrr hefði verið. Þetta er mjög merkileg skýrsla, margar og miklar upplýsingar koma þarna fram. Mér fannst nokkuð merkilegt hvað hæstv. fjármálaráðherra var brattur, eiginlega eins og hans er háttur jós hann skömmum yfir okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa ekki gert hitt og þetta og skilja ekki hversu frábær hann og hans ríkisstjórn eru. Það er efni í aðra ræðu.

Þetta er sami hæstv. fjármálaráðherra og hefur kveðið upp þann dóm að venjulegt fólk hafi ekki tapað neinu í hruninu. Eignatap fjölskyldnanna sem hafa horft á virði fasteigna sinna hrynja, lánin hækka og launin lækka er þá væntanlega tap fjárglæframannanna. Þetta er ekki venjulega fólkið. Það er líka athyglisvert í þessari skýrslu að fara yfir söguna vegna þess að hún mun dæma okkur öll, það er það sem við höfum lært af sögunni.

Það er farið mjög vel yfir valkostina sem ríkisstjórn Íslands stóð frammi fyrir við fall bankanna. Neyðarlögunum er gefin sú einkunn að setning þeirra hafi verið eina færa leiðin fyrir ríkisstjórn Íslands. Hvað gerði stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon þá? Hann sat auðvitað hjá, hann tók ekki ábyrgð á neyðarlögunum, það var ekki hans að taka ábyrgð á þeim. Þetta er sami maðurinn og talar hæst um ábyrgð stjórnarandstöðunnar núna og skammar okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að þvælast fyrir öllum hinum misvitru ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. En það er málið eins og hér hefur komið fram að ríkisstjórnin hefur tekið sér stöðu með kröfuhöfunum og gegn íslenskum almenningi.

Hér hefur komið fram að Fjármálaeftirlitið galt varhuga við þeirri stefnubreytingu að kröfuhafarnir fengju að reka bankana því að hagsmunir þeirra færu ekki saman við hlutverk fjármálastofnana og yrðu því andstæðir hagsmunum viðskiptamanna bankanna. Með galopin augun og eftir leiðsögn hæstv. fjármálaráðherra valdi ríkisstjórnin þá leið að leyfa kröfuhöfunum að reykspóla á Range Rover-num í burtu með allan mögulegan ávinning íslenska bankakerfisins og láta hagsmuni almennings lönd og leið. Það var ákvörðunin. Þetta er enn eitt kornið í mæli misheppnaðrar endurreisnar. Of mikið fé hefur farið í bankana án þess að því hafi fylgt nokkrar kvaðir. Við sitjum uppi með fullan reikning af stökkbreyttum lánum í eigu andlitslausra kröfuhafa, vogunarsjóða eins og sagan segir.

Hverjir eiga bankana? Kröfuhafarnir eru ekki þeir sömu og þeir voru upphaflega þegar vinstri stjórnin fann sig knúna þvert gegn lagaskyldu til að semja við þá. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því og útskýrt af hverju það var gert. Jú, það var til að koma í veg fyrir málaferli og lögfræðikostnaðurinn var svakalegur. Hæstv. fjármálaráðherra fullyrti 1. apríl 2009 á opnum fundi fjárlaganefndar að það eitt væri víst að hörmungarsagan frá árinu 2009 yrði ekki endurtekin núna þegar hann færi í stórfellda einkavæðingu. En hver var sú hörmungarsaga? Var það ekki að mati vinstri manna, með hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar, að einkavæðingin 2002 hefði leitt til falls íslenska bankakerfisins? Að eigendur bankanna, þeir sem keyptu bankana af ríkinu árið 2002, hefðu verið ómögulegir og ekki hæfir, að þeir hefðu farið með íslenskt samfélag í gjaldþrot og ekki staðið undir þeim kröfum sem gera þarf til eigenda fjármálafyrirtækja?

Hvernig lýsir þessi sami maður eigendum tveggja stærstu bankanna í dag, bankanna sem hann einkavæddi fyrir luktum dyrum fyrir tæpum tveimur árum? Hæstv. fjármálaráðherra hafði ekki miklar áhyggjur af þessu núna vegna þess að það væri kominn eldveggur. Kröfuhafarnir væru ekki þeir sömu, við vissum ekki hverjir þeir væru en þeir kæmu aldrei að rekstri bankanna. Ég veit ekki alveg hvaðan hann fékk þær upplýsingar. Árið 2008 skrifaði stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon grein um vogunarsjóði undir fyrirsögninni „Græðgi sem þekkir engin takmörk“. Já, vogunarsjóðirnir eru samkvæmt þessari grein gráðugir og þeir græða á þeim veikustu auk þess að vera fjarlægir og ópersónulegir, svo notuð séu orð sem hann hefur sjálfur notað um vogunarsjóði sem ég endurtek að eiga víst stærsta hlutann af íslensku einkavæddu bönkunum. Þeir voru gráðugir, ópersónulegir, fjarlægir og græða á þeim veikustu. Það eru eigendurnir sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon færði hið nýja bankakerfi Íslands. Og hann hefur ekki áhyggjur af því. Ég ætla að fá að lesa beint upp úr þessari grein vegna þess að hún er stórmerkileg. Undir millifyrirsögninni „Grætt á þeim veikustu“ segir, með leyfi forseta:

„En það nýjasta sem rekið hefur á fjörur undirritaðs og tengist framferði sumra vogunarsjóða (á ensku er stundum talað um „vulture funds“ eða „hrægammasjóði“ í þessum tilvikum) er af því tagi, að það vekur spurningar um hvort siðleysi og græðgi í þessum heimi séu yfir höfuð einhver takmörk sett. Hér vísa ég til þess að nú liggur fyrir að allmargir vogunarsjóðir hafa tekið upp á því að kaupa upp skuldir fátækra og oft mjög skuldugra ríkja, höfða síðan mál gegn ríkjunum eða knýja þau með málaferlum eða hótunum um málaferli og jafnvel hótunum um skemmdarverk á veikburða efnahagslífi þeirra til að greiða lánin að fullu til baka og hina upphaflegu kröfu með vöxtum.“

Af hverju samdi hæstv. fjármálaráðherra við þessa kröfuhafa? Jú, það var til að koma í veg fyrir málaferli. Lögfræðikostnaðurinn, sagði hann hér áðan, var svívirðilegur. Þetta sem helst nú varast vann varð þó að koma yfir hann.

En þessi sinnaskipti fjármálaráðherrans koma mér svo sem ekkert á óvart. Við sjáum þetta nánast á hverjum degi. Þetta er maðurinn sem var á móti einkavæðingu og hann fór fyrir stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar fyrir luktum dyrum. Hann er á móti aðild að ESB og hann er núna á hraðferð með okkur inn í Evrópusambandið. Og ekki einu sinni heldur tvisvar, eins og við fréttum nú síðast af með ákvörðun Atlantshafsbandalagsins í morgun, staðfestir ríkisstjórn Vinstri grænna með fulltingi Vinstri grænna þátttöku Atlantshafsbandalagsins í aðgerðum í Líbíu. Sinnaskiptin koma þannig ekki á óvart. Þessi skýrsla sýnir fram á það að sú stórfellda einkavæðing sem hæstv. fjármálaráðherra stóð fyrir er staðreynd og hæstv. fjármálaráðherra missti einfaldlega tökin á einkavæðingunni.