139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[12:07]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra stofnaði þrjú hlutafélög um innlenda starfsemi gömlu bankanna og í bráðabirgðastofnefnahagsreikningum þeirra sem gerðir voru 14. nóvember 2008 var gert ráð fyrir því að heildarefnahagsreikningur nýju bankanna yrði tæplega 3 þús. milljarðar kr. með tæplega 400 milljarða eiginfjárframlagi ríkisins. Gert var ráð fyrir því í endurreisnaráætluninni að óháður aðili, Deloitte, mundi svo leggja mat á yfirfærðar eignir og skuldir og var matinu skilað í apríl 2009. Matið gaf til kynna að endurheimtur lánanna gætu verið á bilinu 47–55% og útgefin skuldabréf til gömlu bankanna yrðu frá tæplega 500 milljónum upp í rúmlega 750 milljarða.

Í samningagerð Fjármálaeftirlitsins um framkvæmd matsins varð snemma ljóst að matseðillinn mundi ekki skila einni tölu heldur ákveðnu verðbili. Þá var einnig orðið ljóst að kröfuhafar bankanna voru mjög ósáttir við fyrirliggjandi áætlun um verðmatið, töldu hana einhliða og að þeir hefðu ekki möguleika á að gæta hagsmuna sinna.

Menn hafa hér rætt um einhliða ákvörðun sem hefði átt að koma til og ég heyrði ekki betur en að formaður Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir því, en hann ætti að vita manna best að slíkt hefði í för með sér alvarlegt inngrip í eignarrétt og jafnvel brot á stjórnarskrá. Það varð því sem sagt snemma ljóst að mjög erfitt mundi reynast að ná samkomulagi um ákveðið verðmat enda matið háð mismunandi forsendum. Markmið ríkisins var að semja um ákveðið grunnmat, þ.e. að fá lánasafnið yfir á sem lægstu verði sem stofnfjármögnun bankanna gæti svo tryggilega grundvallast á. Þegar upp var staðið reyndist fjárfesting ríkissjóðs vegna endurreisnar bankanna þriggja um 135 milljarðar kr. vegna hlutabréfaframlaga og svo 55 milljarðar vegna víkjandi lána, samtals 190 milljarðar. Auk þess kom til lausafjárstuðningur.

Endanlegt mat var sem sagt í neðra bili verðbils Deloitte en mat kröfuhafa í efra bilinu og var matið því í raun og veru samþykkt af báðum aðilum þegar í samningaviðræðurnar var farið. Í upphaflegum endurreisnaráætlunum var gert ráð fyrir því að hægt væri að taka einhliða ákvörðun um útgáfu skuldabréfs, en svo varð snemma ljóst í viðræðum aðila að um verðbil yrði að ræða. Menn verða sem sagt ósammála um verðmatið og ef ríkið hefði einhliða sagt: Matið er þetta, við ætlum að yfirtaka lánasafnið á því verðmati, geta allir gert sér grein fyrir því að slíkt hefði farið í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og menn verið komnir út á mjög hálan ís. Við værum því í raun að ganga á eignir annarra án þess að í staðinn kæmi sanngjarnt endurgjald.

Hinir íslensku nýju bankar fullyrtu að lánin væru ekki betri en svo að ríflegur afsláttur þyrfti að koma til en erlendu kröfuhafarnir fullyrtu að ástandið væri miklu betra, þ.e. að endurheimtur af lánunum væru betri, og þess vegna væru nýju bankarnir með fulltingi ríkisins að taka af þeim eignir.

En hver varð svo lausnin? Hún varð sú að miða við lægra verðmatið og koma þannig til móts við sjónarmið nýju íslensku bankanna en ef endurheimturnar yrðu betri og meira í átt við það sem gömlu bankarnir töldu, þ.e. erlendu kröfuhafarnir, ætti viðkomandi að njóta þess.

Hér hefur þessi lausn verið gagnrýnd án þess að menn hafi komið með aðra betri. Ég hef ekki heyrt neinn stjórnarandstæðing sem hér hefur talað og gagnrýnt þessa leið harðlega benda á aðra lausn sem gæti tekið á þeim vandamálum sem menn stóðu frammi fyrir. Hefðu menn viljað nota verðmat nýju bankanna, lægra verðmatið, og taka áhættu á dómstólaleið, hefðu menn viljað fara miðgildið og þar með greiða hærra verð fyrir lánasafnið en við gerum í raun eða hefði átt að miða við hærra matið og borga þannig meira? Ég tel bestu lausnina þá að miða við lægra matið en viðurkenna um leið að ef endurheimtur yrðu betri væri ekki verið að ganga á eignarréttinn með því að hinir erlendu kröfuhafar nytu þess þá. Hér er mikilvægt að hafa í huga að hinir erlendu kröfuhafar njóta þess eingöngu ef lán til fyrirtækja standa sig betur, en lán einstaklinga og heimila eru undanskilin þessu skilyrta framlagi.

Í raun má segja að málið snúist um að ríkið hefði þurft að leggja fram 385 milljarða ef það hefði yfirtekið alla bankana þrjá. Það leggur hins vegar fram 135 milljarða. Önnur fjárútlát sem hafa tengst þessari umræðu í dag og t.d. Morgunblaðið hefur birt á forsíðu sinni tengjast öðrum þáttum og þau útgjöld hefðu komið til hvort sem ríkið hefði keypt einn banka eða þrjá. Þannig má segja að samanburðurinn sé sá að hefði ríkið keypt bankana þrjá hefði það lagt fram á bilinu 200–250 milljörðum kr. meira til að yfirtaka bankana þrjá en 135 milljarða sem dugðu til að kaupa einn banka og lítinn hlut í hinum tveimur. Þannig má segja að ef ríkið hefði keypt alla bankana þrjá hefði stuðningur þess við endurreisn bankakerfisins heilt yfir numið á bilinu 600–700 milljörðum kr. Þess vegna má segja að sparnaðurinn hafi verið um 250 milljarðar kr. með því að kaupa bara einn banka en það er um 46 milljarða vaxtakostnaður bara á árunum 2009 og 2010. Þá er ég ekki að tala um það sem við þurfum að borga í vexti 2011 o.s.frv.

Það má því segja að leið Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, hann hefur sagt að ríkið hefði átt að koma inn og yfirtaka alla bankana þrjá, hefði kostað ríkissjóð 46 milljarða í vaxtakostnað árin 2009 og 2010. Markmið ríkisins og hinna nýju banka var að semja um lágt eignamat, grunnmat sem gæti svo hækkað síðar ef vel gengi. Mat Fjármálaeftirlitsins var að tvíhliða samkomulag mundi ekki síður gagnast vel en óháð mat við ákvörðun endurgjalds í samræmi við neyðarlög. Slíkt mundi draga úr deilum og málaferlum í kjölfarið og styðja þar með miklu betur við rekstur hinna nýju fjármálafyrirtækja og nýja fjármálakerfið í heild. Við það bættist sá ávinningur að tvíhliða samningar leiða til þátttöku gömlu bankanna í þeirri áhættu sem tengist óvissu á verðmatinu og umtalsvert fjárframlag við endurreisn nýja bankakerfisins sem mundi stuðla að auknu öryggi þess á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum nú. Ljóst er að ríkiseign allra bankanna þriggja hefði bundið mun meira af almannafé í stuðningi við fjármálakerfið en annars varð raunin. Eiginfjárframlag eigandans til fjármálafyrirtækisins er það fé sem fyrst tapast ef framvindan verður óhagstæð og því mundi ríkissjóður sem eini eigandi bankanna þriggja bera alla áhættuna af rekstri þeirra, óskipta, ef þetta hefði orðið raunin og leið Sjálfstæðisflokksins, flokks einkaframtaksins, að ríkisvæða bankana þrjá hefði leitt það í ljós Við þær kringumstæður var hætt við að geta ríkisins til að mæta frekari áföllum á fjármálamarkaði yrði minni og lánshæfismat þess yrði lengur en ella að styrkjast. Eignaraðild gömlu bankanna hafði hins vegar í för með sér að umtalsvert nýtt fjármagn kom inn í íslenska launakerfið. Menn deila hagnaðarvon bankanna ef vel gengur en það stuðlar að því markmiði neyðarlaganna að tryggja sanngjarnt endurgjald fyrir yfirfærðar eignir og dregur enn fremur úr matsáhættu.

Ég vil því segja, virðulegi forseti, að mér finnst ótrúlega holur hljómur í málflutningi þeirra sem hér hafa talað í dag og gagnrýnt þessa leið því að mér finnst mönnum ekki hafa tekist að benda á aðra betri leið sem hefði verið hægt að fara. (Gripið fram í.) Ég heyri ekki betur á formanni Sjálfstæðisflokksins en að hann hefði frekar viljað að ríkið hefði yfirtekið alla bankana þrjá. Eins og ég hef sýnt fram á í minni ræðu hefði það kostað okkur um 200–250 milljörðum kr. meira sem hefur í för með sér umtalsverðan vaxtakostnað fyrir ríkið. Á hvaða mati hefðu menn byggt þá yfirtöku? Á lægra matinu, miðgildinu eða hærra matinu? Eins og ég hef sömuleiðis sýnt hér fram á hefði það haft í för með sér umtalsverð vandræði. Þess vegna var langhyggilegast að hafa verðmatið opið en láta endurheimtur af lánunum ráða því hvert matið yrði í raun og veru.

Ef menn hefðu farið alla leið og ákveðið einhliða hvert matið ætti að vera, hvert svo sem matið hefði á endanum orðið, hefðu menn líklega gengið á eignarrétt annarra og greitt umtalsvert hærri upphæðir úr ríkissjóði með tilheyrandi vaxtagjöldum. Þá hefðu menn verið í óvissu með eignarhaldið vegna þess að vitaskuld hefðu fylgt úrlausnir fyrir dómstólum, kærur o.s.frv. á þessa einhliða ákvörðun ríkisins. Sú leið sem sjálfstæðismenn, úr flokki einkaframtaksins, hefðu farið í að ríkisvæða bankana þrjá hefði kostað ríkið 46 milljörðum meira í vaxtakostnað á undanliðnum tveimur árum. Það er lykilatriðið í umræðunni í dag.

Það er mikilvægt að við ræðum þessa skýrslu í þaula, enda hafa verið teknar mikilvægar ákvarðanir um endurreisn fjármálakerfisins á undanförnum missirum, en við skulum gæta að því að hafa þann málflutning og þau skoðanaskipti byggð á gögnum og gæta þess að fara rétt með staðreyndir. Og staðreyndirnar eru þær að ríkið gat valið á milli þess að kaupa þrjá banka eða einn, það ákvað að kaupa bara einn banka og spara sér um leið 200–250 milljarða í eiginfjárframlag og tæplega 50 milljarða í vaxtakostnað á árunum 2009 og 2010.