139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[12:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns bregðast aðeins við ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams sem fullyrti áðan að engar tillögur eða hugmyndir hefðu komið frá stjórnarandstöðunni um endurreisn bankakerfisins og því væri nokkuð holur hljómur í málflutningi þeirra sem tekið hefðu til máls á undan mér. Nú er það svo að þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram árið 2009 þingsályktunartillögu um endurreisn íslensku bankanna þar sem við bentum á ákveðnar leiðir til að standa betur að því að þeir væru ekki eins stórir og þeir eru í dag og fleira, og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það. Það er því ekki hægt að bera það upp á þingflokk Framsóknarflokksins að hann hafi ekki verið með efnislegt innlegg í þetta mikilvæga mál. Enda erum við að ræða um stórmál. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra, sem er reyndar ekki staddur hér, fyrir þessa skýrslu (Gripið fram í.) — hæstv. ráðherra er í hliðarsal — sem hann hefur sjálfur lesið yfir. En því miður blasir sú nöturlega staðreynd við okkur að hin norræna velferðarstjórn, og það er staðfest með þeirri skýrslu sem fjármálaráðherrann hefur sjálfur lagt fram í þinginu og við ræðum hér, hefur tekið stöðu með fjármagnseigendum en ekki skuldurum, fjármagnseigendum og erlendum kröfuhöfum sem eiga bankana tvo. Við vitum reyndar ekki hverjir þeir eru og litlar tilraunir hafa verið gerðar til að upplýsa okkur alþingismenn um hverjir keyptu þessa banka í þeirri einkavæðingu sem átti sér stað þegar þeir voru seldir.

Ríkisstjórnin, með hæstv. fjármálaráðherra í broddi fylkingar, ákvað að semja við kröfuhafana. Ríkisstjórnin hafði áhyggjur af óánægju fjármagnseigenda eða hinna meintu kröfuhafa, mun meiri áhyggjur en af stöðu skuldugra heimila. Við fundum það, við framsóknarmenn, þegar við lögðum fram tillögur um það hvernig hægt væri að leiðrétta stökkbreytt lán heimila og fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins í ársbyrjun 2009. Fálega var tekið í þær tillögur og þegar hv. stjórnarliðar tala um að holur hljómur sé í málflutningi okkar framsóknarmanna þá er það svo að í febrúarmánuði 2009 lagði Framsóknarflokkurinn fram 18 tillögur í efnahagsmálum um hvernig við gætum snúið úr vörn í sókn. Ein af þeim tillögum var um að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimila og fyrirtækja.

Nú er þessi skýrsla búin að sanna það enn eina ferðina að það svigrúm var fyrir hendi ef viljinn hefði verið til staðar. Það vantaði einfaldlega forustu hjá hinni norrænu velferðarstjórn til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Sá vilji var einfaldlega ekki fyrir hendi. Þess í stað eyddi ríkisstjórnin miklum tíma í að tala niður þær hugmyndir og tillögur sem þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram þá.

Það er nöturlegt að horfa á hæstv. fjármálaráðherra koma upp og hreykja sér af þessari skýrslu og þeim árangri sem ríkisstjórnin hefur verið að ná að eigin sögn. Sá árangur er ekki ýkja merkilegur. Hæstv. forsætisráðherra hefur talað um kraftaverk þegar kemur að málefnum skuldugra heimila. Maður veltir því fyrir sér í hvaða veröld hæstv. ráðherrar lifa. Þetta er óhugnanlegur málflutningur og nú síðast var hæstv. fjármálaráðherra að guma sig af því að Svavarssamningarnir hefðu verið svo glæsilegir að við hefðum átt að samþykkja þá á sínum tíma. Það væri orðinn 100 milljarða vaxtakostnaður á þessu ári ef þeir hefðu verið samþykktir.

Það er því eðlilegt að við spyrjum, ekki bara við hér inni heldur hagfræðingar úti í samfélaginu: Á hvaða plánetu er þessi ríkisstjórn? Það er með ólíkindum að fylgjast með í máli eftir máli hvernig ríkisstjórnin, sem í orði kveðnu kallar sig norræna velferðarstjórn, hefur tekið stöðu með fjármagnseigendum á kostnað skuldugra heimila sem gerðu það eitt af sér að fjárfesta í húsnæði en horfðust í augu við þann blákalda veruleika í kjölfar efnahagshrunsins að skuldirnar stökkbreyttust. Það hefur ekki verið neinn vilji fyrir því, með róttækum aðgerðum, eins og við framsóknarmenn höfum talað fyrir, að koma til móts við heimilin, hvað þá fyrirtækin í landinu. Því miður ganga þessir hlutir allt of hægt og ríkisstjórnin verður að fara að breyta um verklag og vinnulag en því miður er ekki margt sem bendir til þess. Mér heyrist á hv. stjórnarliðum að lítið sé hlustað á málflutning okkar í minni hlutanum og þær tillögur sem við höfum þó lagt fram hingað til.