139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kominn tími til að nefna nokkra af þessum kröfuhöfum sem alltaf er verið að tala um hérna. Burlington Loan Management Limited, Crédit Agricole Vita S.p.A., Centerbridge Credit Partner Master, L.P. Þetta er listi af alls konar fyrirtækjum sem fáir hafa heyrt um. Hefur það verið okkar málflutningur að við hefðum átt að svína á þeim, við hefðum átt að sýna einhver klækjabrögð og hafa af þeim eitthvað sem þau áttu lögmæta kröfu til að eignast í tengslum við þrot bankanna? Að sjálfsögðu ekki. Það þarf ekkert að rifja það upp fyrir okkur hér að því hafi verið lýst yfir í samskiptum við AGS að þessir aðilar fengju allir réttláta málsmeðferð, að þeir fengju sannvirði fyrir eignir sínar. Nei, það þarf ekkert að rifja það upp. Það sem gerst hefur hins vegar er að þeir hafa fengið sannvirðið og alla framtíðarverðmætaaukningu til viðbótar. Ef við notum dæmi hæstv. fjármálaráðherra um gullið fengu þeir greitt fyrir gullið og svo hafa þeir fengið framtíðarhækkun á verði gulls í kjölfarið. Það er þetta sem gerðist. Þeir fengu meira en það sem sanngjarnt var. (BJJ: Þetta er skjaldborgin.) Og á hinum endanum eru Íslendingar sem hafa tekið lán hjá þessum bönkum og fyrirtækjum og endanlegur dómur um það hvernig til hefur tekist við að endurreisa bankakerfið hlýtur að vera staða heimilanna, fyrirtækjanna og bankanna.

Hvers vegna er til dæmis þessi ofurhagnaður hjá bönkunum? Hvernig stendur á honum? Hvernig stendur á því að í efnahagskerfi sem er í mikilli lægð skila bankarnir tuga milljarða hagnaði? Hvers vegna? Hvers vegna hefur þeim verið búið skjól til að mynda slíkan ofurhagnað? Hver er staða heimilanna? Er ríkisstjórnin ánægð með stöðu heimilanna, þ.e. hvernig fjármálafyrirtækin hafa gert upp við þau? Er ríkisstjórnin ánægð með stöðu fyrirtækjanna? Ekki heyrist mér það. Við höfum til viðbótar kostnað ríkisins sem ég ætla að koma aðeins inn á í mínu seinna andsvari. Allir mælikvarðar á það hvernig til hefur tekist (Forseti hringir.) sýna að þetta er klúður.