139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið með miklum ólíkindum að fylgjast hér með hæstv. fjármálaráðherra og nokkrum stjórnarliðum, eins og hv. þm. Helga Hjörvar og fleirum til, sem hafa eytt bróðurparti tíma síns í ræðustól í dag í að taka málstað kröfuhafanna, til að útskýra fyrir þingheimi hvers vegna hafi þurft að passa svo sérstaklega upp á þá. Þegar við köllum eftir umræðu um stöðu heimilanna og fyrirtækjanna, um það hvernig tekist hefur til við að koma á starfhæfu bankakerfi hér og eigendastrúktúr að því, hlaupa þessir sömu menn allir á brott. Hæstv. fjármálaráðherra forðast þessa umræðu eins og aðrir.

Ræðum hér um það hvernig sannvirði gengur á milli manna og spyrjum okkur að þessu: Hvernig eiga samskipti banka og heimila sér stað í dag? Fá heimilin sannvirði fasteigna þegar þær eru seldar á nauðungaruppboði við þær ömurlegu aðstæður sem eru í dag? Fá heimilin að njóta framtíðareignavirðis heimilanna þegar fasteignamarkaðurinn tekur við sér í framtíðinni? Að sjálfsögðu ekki. Bankarnir taka fasteignirnar til sín á lægsta mögulega verði. Þannig haga kröfuhafar sér yfirleitt, en þegar þessir sömu kröfuhafar semja við ríkisstjórnina fá þeir lágmarksverðið og framtíðaraukninguna.

Við sjáum það á uppgjörum bankanna í dag og það birtist ágætlega í þeim pappírum sem Seðlabankinn sendi frá sér í gær að hagnaður bankanna á síðasta ári er að uppistöðu til kominn til vegna ofmetinnar afskriftaþarfar. Það stendur upp á fjármálaráðherrann að svara því hér hvers vegna ríkisstjórnin hafi skapað umhverfi fyrir íslensku bankana sem gerir þeim kleift að hagnast um tugi milljarða þegar efnahagskerfið sjálft, heimilin og fyrirtækin, er í algerri lægð. Hvernig stendur á því? Hvað veldur þessari ofmetnu afskriftaþörf sem stendur undir hagnaði bankanna og skilar þessum mikla hagnaði á sama tíma og bankarnir segja við almenning í landinu: (Forseti hringir.) Afskriftagetu okkar hefur allri verið skilað? Þeir segja að henni hafi allri verið skilað út til heimilanna en það stenst enga skoðun.