139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:20]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að beina andvari mínu til hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.

Ég held að það sé fróðlegt að við vörpum aðeins ljósi á samspil neyðarlaganna og samspil þess að hafa lokið samningum um endurreisn bankanna með samningum við hina erlendu kröfuhafa. Það vita allir sem hér eru að gildi neyðarlaganna fyrir endurreisn hins íslenska samfélags var mjög mikið, þ.e. við fórum fram með það með lagasetningu í þessu húsi að afskrifa og ýta frá okkur öllum erlendum skuldum hinna þriggja stóru banka en um leið að vernda hinar íslensku innstæður, eigur íslenskra sparifjáreigenda.

Hvaða áhrif telur hæstv. fjármálaráðherra það hafa á stöðu neyðarlaganna að tekist hafi að ljúka viðskiptum við hina erlendu kröfuhafa með þeim samningum sem hér eru ræddir í dag? Ef farin hefði verið til dæmis leið Sjálfstæðisflokksins og bankarnir þrír ríkisvæddir, en þess má geta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum árum talið sig flokk einkaframtaksins, og við jafnvel tekið einhliða ákvörðun, eins og sjálfstæðismenn hafa fullyrt í umræðunni í dag, um matið á eignasafninu, hvað hefði það þýtt fyrir stöðu neyðarlaganna, stöðu hins íslenska samfélags veturinn 2008–2009?