139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að neyðarlögin — sem skýrslan vel að merkja rökstyður og útskýrir mjög vel að hafi verið besti kosturinn sem við áttum, kannski eini kosturinn í stöðunni, þannig að ekki er þar kuldalega vikið að þeim sem þau settu á sínum tíma, eða hvað? (Gripið fram í.) Er ódrengilegt að fjalla (Gripið fram í.) um það með þeim hætti sem þar er gert? — voru mikilvægur grundvöllur þessarar aðgerðar og sérstaklega það atriði þeirra að gera innstæður að forgangskröfum. Á þeim grunni er síðan hægt að færa eignir á móti innstæðunum sem eru forgangskröfur í búið hvort sem er. Þar af leiðandi verða aðrir kröfuhafar að sætta sig við að þessi mikla eignatilfærsla á móti innstæðunum er á grunni þess að þær eru forgangskröfur. Á því byggir aðgerðin.

Að sjálfsögðu var þar af leiðandi mikilvægt að þeir sem áttu mesta hagsmuni undir í þessu sættu sig við þá aðgerð. Hættan var tvíþætt, annars vegar að neyðarlögunum sjálfum yrði frekar ógnað ef þetta tækist ekki sæmilega og hins vegar að uppgjörið sjálft milli nýrra og gamalla banka yrði í uppnámi vegna málaferla sem aftur hefði tafið það að hægt væri að fjármagna bankana og aftur hefði tafið að þeir hefðu getað tekið til starfa. Tók það nógu langan tíma samt.

Það að menn ná samkomulagi um uppgjörið og falla frá öllum rétti til málaferla og að samið er um frið um aðgerðina skiptir gríðarlega miklu máli. Sú hætta var auðvitað yfirvofandi ef menn hefðu neyðst út í einhliða ákvarðanir að þeim yrði umsvifalaust stefnt fyrir dómstóla og langvinn málaferli hefðu getað lamað hér uppbyggingu þess fjármálakerfis sem við sannanlega þurftum á að halda og þurfum á að halda. Hvað sem mönnum finnst um banka og framgöngu þeirra í heiminum sjáum við varla fyrir okkur nútímasamfélag rekið án þeirra.