139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög frumleg hugmynd hjá hv. þingmanni. Ég hef eiginlega ekki heyrt áður að það hefði verið hægt að nota til viðmiðunar markaðinn með kröfur á bankana fyrstu dagana eftir að þeir hrundu og að menn hefðu sæst á það sem sanngjarnan vegvísi um hvernig ætti að meta eignirnar. (Gripið fram í.) Ég hef ekki alveg heyrt áður að mönnum hafi dottið það í hug, en hv. þingmaður er hugmyndaríkur og hefur fært hér rök fyrir þessari skemmtilegu kenningu sinni.

Öðru var samt heitið eins og ég hef nú þegar komið að. Íslensk stjórnvöld hétu því og settu í lög að reynt yrði að greiða sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Út á það gengur þetta.

Síðan er mikill misskilningur í gangi um að kröfuhafar hafi setið sem slíkir við þetta samningaborð. Svo var ekki. Það gerðu þeir ekki. Samkvæmt lögum eru settir gæslumenn yfir búin, skilanefndir sem bera ábyrgð á því og þær eru samningsaðilar við nýju bankana og ríkið á bak við þá í þessum viðræðum. Þannig er það, enda getur kröfuhafahópurinn tekið breytingum á hverjum tíma.

Allt þetta óskaplega tal um að það hafi verið gefið eftir fyrir þeim og gengið erinda þeirra er óskaplega dapurlegt. Það er satt best að segja óskaplega dapurlegt að hlusta á slíkt, og það er ódýrt að ætla að slá keilur í pólitískri umræðu með því að gera út á hlutina með þessum hætti þegar menn ættu að vita betur, að halda því að almenningi sem er að berjast við erfið skuldamál sín að þarna hefði verið hægt að fara einhverja leið til þess að færa hundruð milljarða sérstaklega til þeirra án þess að það hefði nokkurs staðar komið við, eins og það hefði verið í valdi stjórnvalda.

Ég veit ekki hversu rækilega þarf að reyna að útskýra að slíkt sé ekki hægt í svona ferli þegar menn verða að ganga út frá grundvallarreglunum sem ég hef farið yfir hér, þegar stjórnarskrá er í gildi þar sem eignarréttur er til staðar og varinn (Forseti hringir.) og verndaður og þegar stjórnvöld í ofanálag hafa heitið því að viðhafa sanngjarna málsmeðferð í svona uppgjöri. (Gripið fram í.)