139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Rökstuðningur minn var ekki frumlegri en svo að ég var bara að notast við þá röksemdafærslu sem hæstv. fjármálaráðherra sjálfur notaði um gullið. Allt í einu hefur hann skipt um skoðun. Væntanlega hefði ekki mátt leggja heimsmarkaðsverð á gull ef bankarnir hefðu átt gull, en ekki lánasöfn, ef það markaðsverð hefði verið of lágt. Ef gull hefði verið farið niður í 500 dollara, ætli menn hefðu þá þurft að segja: Nei, þetta er kannski dálítið lágt verð á gulli núna, eigum við ekki að meta það á þúsund dollara? Þetta eru rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að stjórnvöld hafi látið kröfuhafana fá allt sem þeir báðu um. En hvers vegna var það gert? Við sjáum meðal annars í þessari skýrslu að það var rætt við breska og hollenska ríkið sem kröfuhafa bankanna. Hæstv. fjármálaráðherra sagði reyndar áðan að menn hefðu ekkert verið að ræða við kröfuhafa, en í skýrslunni kemur fram að litið var á breska og hollenska ríkið sem kröfuhafa. Strax frá byrjun er sú túlkun uppi þótt menn hafi síðar reynt að færa þær kröfur og skuldir yfir á íslenska ríkið og íslenska innstæðutryggingarsjóðinn.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að setja sig í spor Steingríms J. Sigfússonar, þess sem var hér árið 2008 og áratugina þar á undan, sérstaklega með hliðsjón af því sem sá ágæti maður sagði, m.a. um vogunarsjóði, hrægammasjóði og aðra sem keyptu kröfur í skuldsettum ríkjum til að pína menn til að greiða sem mest fyrir: Hvað telur hæstv. fjármálaráðherra að þessi Steingrímur J. Sigfússon hefði sagt ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði setið áfram og gert það sem þessi ríkisstjórn hefur gert gagnvart kröfuhöfum bankanna, staðið eins að stofnun nýju bankanna og látið kröfuhafana njóta vafans? Hvað hefði gamli Steingrímur J. Sigfússon sagt við þær aðstæður? (Gripið fram í: Svaraðu nú.)