139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

fundarstjórn.

[15:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að okkur hafi öllum verið ljóst um nokkra hríð að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á móti hernaðarátökum í Líbíu og vill að Ísland gangi úr NATO. Þetta vitum við öll.

Hins vegar á Vinstri hreyfingin – grænt framboð aðild að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og sú ríkisstjórn stendur á vettvangi Atlantshafsbandalagsins að því að framlengja aðkomu NATO að hernaðaraðgerðum í Líbíu. Málið er allt mjög einkennilegt og flókið og við sem sitjum á þingi áttum okkur eiginlega ekki alveg á þeirri stöðu sem upp er komin. Ég vil taka fram að hún snýr ekki einungis að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, við þurfum að ræða hérna hver stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum er sé hún yfir höfuð til staðar.

Allar ríkisstjórnir, a.m.k. í hinum vestræna heimi, ef ekki í öllum heiminum, hafa heilsteypta stefnu í öryggis-, varnar- og utanríkismálum þar sem ríkisstjórnirnar standa sama nema kannski (Forseti hringir.) hér á Íslandi. Þar virðist hver höndin vera upp á móti annarri og við þurfum að ræða þá stöðu sem upp er komin.