139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka þá umræðu sem hefur farið fram um leið og ég verð að bera af mér þær sakir sem á mig hafa verið bornar síðasta sólarhringinn en því hefur þráfaldlega verið haldið fram bæði hér í salnum og í fjölmiðlum að það væru aðeins stjórnarandstæðingar á mælendaskrá í þessu máli. Það er ekki rétt, enda engin ástæða til annars fyrir okkur í stjórnarliðinu en bregðast við umræðunni sem hér hefur verið. Ég held að hún hafi að mörgu leyti verið gagnleg og muni hjálpa til við úrvinnslu málsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og undirstriki mikilvægi þess að við komum sem allra fyrst að stóra málinu sem við vonum að verði tekið næst til umræðu og sömuleiðis til meðferðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vegna þess að fjölmörg álitaefni og ýmsar athugasemdir hafa komið fram.

Mikilvægt er að við tökum mánuðina, sem við eigum fram undan til stubbsins svokallaða í september, í það að kalla alla sérfræðinga og hagsmunaaðila sem við mögulega getum að þessum mikilvægu málum og gefa þeim góðan tíma til að vinna álit sín og hafa góðan tíma í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að vinna úr álitunum og að málunum tveimur í samhengi því að þau eru náskyld. Í öðru frumvarpinu er t.d. gert ráð fyrir því að hitt falli úr gildi þegar það verður að lögum. Út af fyrir sig ætti líka að taka mál Hreyfingarinnar inn í ferlið þannig að öll sjónarmið séu undir og þær athugasemdir sem fram hafa komið í umræðunni. Það er líka gagnlegt fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að hafa heyrt ýmsar þær athugasemdir og ábendingar sem hafa komið fram. Augljóst er að menn hafa ýmsa fyrirvara á þessum málum svo sem þingmenn úr mörgum flokkum um þá þætti sem lúta að skiptingu á veiðigjaldinu og aðrir um sjónarmið byggðakvóta og sveitarfélagaúthlutanir og hvað það nú er sem nefndin telur tilefni til að fara vel yfir.

Það sem hefur kannski verið hvað gagnlegast í þessari umræðu er að æ betur hefur komið í ljós að stjórnarflokkarnir og Framsóknarflokkurinn eiga meiri samleið í þessum málum en margir hefðu haldið í upphafi kjörtímabilsins. Þegar menn skoða nýlegar ályktanir Framsóknarflokksins í þessum málum, hlusta á ræður þingmanna flokksins, lesa nýlegar blaðagreinar eftir þingmenn þeirra sem hafa gefið sig sérstaklega að þessum málum þá verð ég að taka undir það með mörgum þingmönnum að þar virðast vera ýmsir sameiginlegir snertifletir. Auðvitað eru framsóknarmenn ósáttir við ýmislegt í þessum málum og vilja haga ýmsu með öðrum hætti en ég held að áherslumunurinn liggi í atriðum sem menn ættu að geta rætt málefnalega í meðförum nefndarinnar og kannað hvort hægt sé að gera einhverjar breytingar á málinu sem geta skapað enn þá víðtækari sátt um þessi hóflegu sáttaboð stjórnarflokkanna sem frumvörpin eru.

Ég held að það blasi við öllum eftir þá kynningu og umræðu sem fram hefur farið að ekki er verið að kollvarpa sjávarútveginum með einum eða neinum hætti. Hér er fyrst og fremst verið að tryggja það sem öll þjóðin vill sem er eignarhald þjóðarinnar á auðlindum. Þeir sem hafa nýtingarrétt hafa hann sannarlega til langs tíma en þó ekki ævarandi nýtingarrétt. Við höfum kynnt 15 ár en Framsóknarflokkurinn hefur talað um 20. Sumir vilja hafa tímann eitthvað lengri. Það er nokkuð sem menn geta rætt í meðförum nefndarinnar og síðan hvort ákveðinn hluti af þeim heimildum fari í að mæta sjónarmiðum um mannréttindi, byggðaþróun og ýmsum öðrum sjónarmiðum en hinum hreinu atvinnusjónarmiðum sem verða að vera undir í jafnmikilvægum grundvallaratvinnuvegi og hér er á ferðinni. Ég hlakka til að eiga samræður við Framsóknarflokkinn.

Um leið hlýtur það að vekja athygli að Hreyfingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru hvor sínum megin við þetta mál. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ætla að vera í algerri afneitun um að nokkrar breytingar þurfi að gera á þessu kerfi. (Gripið fram í.) Það hvernig hann einblínir á arðsemina í málinu (Forseti hringir.) er eins og að gera málið allt að einum andlegum eintrjáningi. Menn þurfa auðvitað að hafa fleiri sjónarmið undir (Gripið fram í.) og ekki síst mannréttindaþátt málsins. (Gripið fram í: … umræðuna.)

(Forseti (KLM): Forseti vill biðja hv. þingmenn um ró í þingsalnum, gefa ræðumanni kost á að flytja ræðu sína.)