139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sem kunnugt er er ég talsmaður þess að breytingar verði gerðar á veiðigjaldinu og tel að það sé algerlega óþolandi að litið sé svo á að auðlindin sé meira í eigu sumra landsmanna en annarra. Ég held að tekjurnar eigi að renna jafnt í sameiginlega sjóði og við á höfuðborgarsvæðinu eigum alveg kröfu til þess. (PHB: Það er ekki í lögunum.)

Þegar hv. þingmaður spyr hvort réttlætanlegt sé að úthluta kvóta í byggðir utan Reykjavíkur er svarið hins vegar að það sé algerlega réttlætanlegt. Þó að við í Reykjavík norður eigum langa útgerðarsögu og mörg glæsileg útgerðarfyrirtæki þá er það svo að út úr þessum kerfisbreytingum fóru smá byggðarlög sem hafa byggt nær algerlega á þessari undirstöðuatvinnugrein sérstaklega illa. Það er hægt að horfast í augu við þær afleiðingar og reyna að mæta þeim með því að færa þangað aflaheimildir. Ég geri engar athugasemdir við það (Forseti hringir.) en það verður að gera málefnalega.