139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um stefnu Framsóknarflokksins, eins og reyndar nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, og það er út af fyrir sig ánægjulegt að Samfylkingin horfi til þeirra en á tillögum okkar og frumvörpunum er grundvallarmunur. Ef við nefnum til að mynda minna frumvarpið þá er tilgangurinn með því að auka pottakerfið sem gengur í frumvörpunum út á að taka af öðrum, færa til atvinnu, en við framsóknarmenn ætlumst aftur á móti til að byggt verði á því að um aukningu verði að ræða og eðlileg hlutdeild verði í aukningunni.

Varðandi nýtingarsamningana erum við með þá til 20 ára og jafnvel lengur og að framlengja megi leyfin á fimm ára fresti til að tryggja þau. Það er það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann að. Í tillögum okkar er verið að tryggja arðsemi og rekstrargrundvöll greinarinnar en í frumvörpum hæstv. sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) er vegið að rekstrargrundvelli greinarinnar og arðsemin tekin út og alls kyns aðrir þættir sem varða til að mynda vald ráðherrans og hugsanlega félagslega væðingu (Forseti hringir.) kerfisins eru með þeim hætti að maður óttast um grundvöll greinarinnar.