139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að vísa því algerlega á bug að ég hafi haldið því fram að þetta væri það sem öll þjóðin vildi. Ég er almennt þeirrar skoðunar að ef stjórnmálamenn halda því fram að þeir fari með valdið fyrir hönd allrar þjóðarinnar sé full ástæða til að fangelsa þá því að það eru sennilega þeir einræðisherrar sem hættulegastir hafa verið í sögunni sem hafa þannig litið á sig.

Það er ekki svo. Við höfum einfaldlega bent á að það er gríðarlegt ósætti um núverandi skipan mála og aðeins 7% landsmanna styðja óbreytt kerfi. Hér er um að ræða viðleitni til að ná miklu víðtækari sátt. Auðvitað hafa margir athugasemdir við það og auðvitað verða aldrei allir sáttir við það en við þurfum að skapa nægilega víðtæka sátt í þjóðfélaginu til að það sé festa, stöðugleiki og öryggi í þessari grundvallaratvinnugrein til framtíðar. Meðan þessar deilur (Forseti hringir.) standa um hana búa menn þar við viðvarandi óöryggi um morgundaginn.