139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:47]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að verið er að rugla þessu máli saman við aðildarumsókn að Evrópusambandinu, það er engin spurning. Allar vinnureglur Evrópusambandsins í samningum á sjávarsviði miðast við 15 ár. Síðan er þarna bætt við með athugun hugsanlega og úttekt og skoðun og geðþóttaákvörðunum ráðherra og stjórnvalda hvort fyrirtæki eigi að lifa eða ekki. Þeir sem um málið fjalla vita ekki einu sinni um grunneðli hlutanna. Margir hérna vita t.d. ekki af hverju veiðibjallan er á Austurvelli. Þetta eru bara hlutir sem maður lærir af reynslunni, virðulegi forseti, og það verður að taka tillit til reynslunnar og þess sem menn læra af henni.

Það er engin spurning að ef fara ætti að gera þá hluti upp sem hv. þingmaður spurði um væri fjandinn laus, þá yrði brotinn reksturinn. Tökum dæmi um eina mögnuðustu útgerð landsins með nýtt skip, Þórunni Sveinsdóttur. Það þarf 25 ár lágmark til að afskrifa þá nærri 2 milljarða sem eru skuldir þeirrar rótgrónu útgerðar. Þess þarf bara. Á þá að stoppa einhvers staðar á miðri leið og setja útgerðina í úttekt? Þegar þeir feðgar sem áttu þetta skip fengu fiskveiðasjóðslán á sínum tíma dugði þeim að koma með mynd af bikurum sem þeir höfðu fengið fyrir aflakóngstitla í 20 ár. Það þurfti ekki skýrslur eða eftirlitsskjöl, það þurfti bara reynsluna og það sem menn vissu. Við þurfum að horfa til þess að ekki sé verið að sníða stakk sem ekki er hægt að fara í heldur verður stakkurinn sem við vinnum í að vera sveigjanlegur. (Forseti hringir.)