139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir svör hans. Að sjálfsögðu liggur þetta í hlutarins eðli en það er með þetta frumvarp eins og önnur að hvergi er kveðið á um það í frumvarpinu að um aðildarumsókn sé að ræða og að verið sé að breyta kerfinu vegna þess, því miður. Það hefur komið fram í fréttum að frumvörpin eru smíðuð í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en greinargerðirnar í forsætisráðuneytinu. Það sjá allir að þetta eru tvíhöfða þursar sem er verið að bera inn í þingið.

Aðalstefna Samfylkingarinnar er að koma þjóðinni í Evrópusambandið. Eitt meginmarkmið til að hægt væri að framfylgja því var að taka upp hina svokölluðu fyrningarleið sem Samfylkingin barðist mjög fyrir í kosningabaráttunni. Fyrningarleiðin gengur út á að ná veiðiheimildunum til baka af útgerðum. Stefnumarkið var að ná því á 20 árum. Það er líklega það svigrúm sem Evrópusambandið býður Íslendingum, plús þrjú ár því að hér stendur að lögin falli úr gildi eftir 23 ár. Svona er hægt og sígandi verið að blekkja þjóðina og blekkja þingmenn með því að hafa þetta ekki í hreinum lagatexta. Þetta er sorgleg staðreynd en svona er það nú samt.

Varðandi veiðibjöllurnar sem eru á Austurvelli vegna þess að síldarstofninn er að bregðast væri óskandi að þær hefðu vit á því að vera fyrir utan Stjórnarráðið. Þar ættu þær að gjamma vegna þess að ríkisstjórnin er verklaus og algerlega vonlaus í öllum málum. Það sést best á því að hingað eru enn á ný komin mál í ófriði en ekki friði.