139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Eitt var það sem hv. þingmaður kom líka inn á í ræðu sinni og blasir við öllum sem lesa frumvarpið, þetta ofboðslega vald sem er fært hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nánast allar greinar enda þannig að hann setji nánari reglugerð. Nú þekkjum við hvernig það hefur gengið í gegnum tíðina, það er oft ekki í samræmi við viljann á þinginu.

Hv. þingmaður hefur verið mjög öflugur talsmaður þess að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu, flutt hér metnaðarfullt frumvarp um að styrkja löggjafarvaldið með því að stofna sérstaka lagaskrifstofu og hefur talað um þetta margoft í ræðum sínum. Þess vegna vil ég fá viðbrögð frá hv. þingmanni um hvort henni finnist ekki, eins og mér, að þarna sé gengið fulllangt eða í raun og veru allt of langt í að afsala löggjafarvaldinu völdum til framkvæmdarvaldsins með öllum þessum tilvísunum um það að settar skuli nánari útfærslur í reglugerð (Forseti hringir.) sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveður hverju sinni.