139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í andsvörum hefur mér orðið tíðrætt um mál sem mér er ansi hugleikið í þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru, í báðum málum í raun. Það er horft til þess hér að auka aflaheimildir og við höfum fjöldann allan af fólki um allt land sem hefur á síðustu árum fjárfest í aflaheimildum, hefur í raun ekki gert annað en að spila eftir þeim leikreglum sem þingið hefur sett. Það hefur fjárfest í aflaheimildum og skuldsett sig ansi mikið vegna þeirra kaupa. Mjög stór hópur fólks, og þarna er ég kannski fyrst og fremst að horfa til þessara litlu og meðalstóru fyrirtækja um allt land, fjölskyldufyrirtækja þar sem svigrúmið er minna, lenti í miklum skerðingum árið 2007 þegar við fengum einhverja mestu skerðingu í þorski sem við höfum horft upp á og fólkið sat uppi með skuldir sem jafnvel nýlega var stofnað til.

Nú á að auka hér aflaheimildir. Þetta fólk hefur ekki gert annað en að spila eftir því kerfi sem löggjafinn setti því og nú ætlar löggjafinn að taka þær aflaheimildir og úthluta með öðrum hætti. Löggjafinn ætlar með öðrum orðum að skilja þetta fólk eftir með skuldirnar og taka af því þann nýtingarrétt sem það var búið að kaupa.

Ég spyr hv. þingmann, ekki síst vegna þess að hún er lögfræðingur, hvaða réttlæti hún sjái í þessu og þá hver möguleg lagaleg staða (Forseti hringir.) þessa fólks sé gagnvart ríkissjóði við svona trakteringar, hvort það sé ekki mikil hætta á því að ríkissjóður baki sér umtalsverða skaðabótaábyrgð með vinnubrögðum (Forseti hringir.) sem þessum.