139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég vonast til að þingmaðurinn komi inn á spurningar tvö og þrjú í seinna andsvari, um ESB-umsóknina og hvað tekur við eftir 23 ár. Það er akkúrat þetta sem er að gerast hér í hnotskurn. Samfylkingin var búin að lofa þessari fyrningarleið. Það hentar hæstv. forsætisráðherra afskaplega vel að hafa þetta mál á dagskránni og á dagskrá úti í þjóðfélaginu. Hún opnar varla munninn nema til að hóta því að senda kvótann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslum, þingmaðurinn má ekki misskilja mig, en að vera með þetta í hverri einustu ræðu, að leysa mál eins og til dæmis þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar málið er á borði ríkisstjórnarinnar, gefst hún upp og talar á þennan hátt.

Við vitum að ákveðinn þáttur fiskveiðistjórnarkerfisins er í mikilli ónáð hjá þjóðinni, (Forseti hringir.) svo ekki sé meira sagt. Þess vegna hentar það hæstv. forsætisráðherra að ala á þeirri tortryggni áfram í forsæti (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar sjálfrar.