139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða við hv. þm. Jón Gunnarsson þar sem hann er öflugur liðsmaður í Landsbjörgu og hefur komið að slysavörnum og björgunarmálum um árabil. Í umræddu frumvarpi er fyrirhugað að setja á laggirnar nýjan strandveiðiflota, skip sem eru undir 3 tonnum, 3 brúttótonnum. Mér skilst að í dag séu einungis 30 bátar í kerfinu svo litlir. Við vitum að veður eru válynd við Íslandsstrendur og í sóknarkerfinu verða menn að fara út strax í byrjun og reyna að veiða sem mest, ellegar geta þeir orðið af afla af því að aðrir geta veitt meira.

Við sjáum það væntanlega fyrir okkur að þessum bátum muni snarlega fjölga ef þeir eiga að njóta einhvers sérstaks forgangs í úthlutunum. Ég velti því fyrir mér hvort við gætum hugsanlega rísikerað því að missa þann góða árangur sem náðst hefur — frábær árangur náðist til dæmis á árinu 2008, þegar ekkert dauðsfall varð á sjó. Maður veltir því fyrir sér hvort við séum að rísikera öryggisþættinum. Ég vil þá líka spyrja hv. þingmann þar sem hann hefur þekkingu á stöðu Landhelgisgæslunnar — við ræddum þetta aðeins í upphafi strandveiðikerfisins, hvort það hefði áhrif á Landhelgisgæsluna, hvort nú þegar væru fleiri útköll vegna þessa kerfis (Forseti hringir.) og hvort við þurfum að óttast að fleiri alvarleg slys verði af völdum þessa (Forseti hringir.) frumvarps.