139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt, ég held að það sé einn af annmörkum frumvarpsins að fara að skapa hér nýjan strandveiðiflota lítilla smábáta, mjög lítilla báta, og það hefur komið fram að eingöngu eru um 30 bátar í þessu kerfi. Þetta mun í fyrsta lagi leiða til offjárfestinga í þessum bátum aftur. Menn munu fara að fjárfesta í slíkum bátum og síðan fara að óska eftir meiri kvóta. En ekki síst mun þetta hafa áhrif á öryggismál til sjós þar sem við höfum náð alveg einstökum árangri, enda gerum við meiri kröfur til útgerða okkar og sjómanna um að huga að öryggismálum en nokkurs staðar annars staðar er gert í heiminum. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Það hefur verið markmið okkar til margra ára — frá því við áratugum saman misstum tugi sjómanna, jafnvel á annað hundrað sjómenn, á ári í sjóslysum — að á sjómannadaginn, sem er á sunnudaginn, verði engin stjarna á fána Sjómannadagsráðs þegar hann er borinn inn við sjómannamessu í Dómkirkjunni. Það hefur aðeins einu sinni gerst. Stundum hefur hún verið ein, en oft hafa þær verið fleiri. En reynslan sýnir að við höfum náð að draga verulega úr slíkum slysum.

Þegar farið var í strandveiðarnar fjölgaði útköllum alveg gríðarlega. Það gerðist aftur í sumar. Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur 14 stærri björgunarskip hringinn í kringum landið og þau hafa haft í nógu að snúast, auk þess sem bátar á sjó, áhafnir á þeim, hafa verið að koma félögum sínum til hjálpar.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tala um að huga verði að (Forseti hringir.) öryggismálum sjómanna í tengslum við þetta, en leggja frumvarp fram í algjöru ábyrgðarleysi og án þess að vera búnir að skoða nokkuð forsendurnar fyrir málflutningi sínum.