139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir nokkuð skelegga ræðu um sjávarútvegsmál. Við erum ekki endilega alveg sammála í þessu efni, enda nokkur greinarmunur á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu í afstöðu til fiskveiðistjórnarmála.

Hv. þingmaður sagði: „Reynslan af kvótakerfinu er góð.“ — Og ég er því að nokkru leyti sammála. Reynslan af kvótakerfinu er góð fyrir suma, fyrir sumar byggðir. Hann lét þess ógetið að margar byggðir hafa farið mjög illa út úr kvótakerfinu og eins hefur kvótakerfið verið sniðið að forréttindum sumra. Þannig hefur það verið. Þannig var það í upphafi níunda áratugarins að menn voru einfaldlega bara uppi á réttum tíma og fengu, miðað við veiðireynslu, ákveðnar kvótaheimildir nánast í eigin vasa til að ráðskast með í gegnum árin og þannig hefur þetta verið.

Við verðum hins vegar á næstu missirum, vikum og mánuðum að tala okkur til sáttar í þessu máli. Fiskurinn í sjónum skal vera þjóðareign, í þjóðareigu, og arðurinn af honum á að skila sér til byggðanna, en jafnframt til ákveðins auðlindasjóðs, byggðunum til heilla, ekki síst þeim sem hafa farið illa út úr gamla, og ég segi úrelta, kvótakerfinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða meinbugi hann sjái á núverandi kvótakerfi. Getur hann talið upp svo sem eins og fimm megingalla á núverandi kvótakerfi? Hverju vill hann breyta? Sér hann ef til vill enga galla? Ef hann sér einhverja galla, hverjir eru þeir þá helstir — ég nefni til dæmis fimm — og hvernig á að breyta þeim?