139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:58]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna það mikilvæga mál sem sjávarútvegsmál eru fyrir okkur Íslendinga öll og mig langar að byrja á að spyrja: Hvar er hæstv. sjávarútvegsráðherra? Hvar er hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar? Og hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar? Ég hélt að það væri við hæfi að þau væru við þessa umræðu þar sem þetta mál skiptir okkur öll svo miklu, sérstaklega þá sem koma til með að véla með það í meðförum þingsins.

Virðulegi forseti. Það var forkostulegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir eftir flokksráðsfund VG um þarsíðustu helgi að breytingin á fiskveiðistjórnarkerfinu væri eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar. Ætli mætti ekki leiða að því býsna sterk rök að sjávarútvegurinn á Íslandi sé um það bil eina atvinnugreinin sem er nokkurn veginn í lagi? Sjávarútvegurinn skilar nú þjóðinni um 37% af öllum gjaldeyristekjum sem hún aflar og hlutur hans í gjaldeyristekjum hefur ekki verið svo mikill um langt skeið. Íslendingar hafa náð svo góðum árangri í fiskveiðistjórn að Evrópusambandið vill taka upp íslenska kerfið svo gott sem í heilu lagi.

Fyrir verk og verkleysi ríkisstjórnarinnar gengur endurreisn atvinnulífsins afar hægt og illa Hagvöxtur er undir væntingum og atvinnuleysi meira en gert var ráð fyrir. Fjárfestingar í atvinnulífinu eru í algjöru lágmarki. Það er við þessar aðstæður sem hæstv. fjármálaráðherra lýsir því yfir að eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar sé að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu. Ríkisstjórnin er þá ekki að fást við mörg mikilvæg og brýn verkefni um þessar mundir ef þetta er það brýnasta.

Það að lagfæra, það að sníða af vankanta og breyta í anda þeirrar sáttar sem náðist í sáttanefndinni er ekki sú leið sem ríkisstjórnin valdi. Ríkisstjórnin kaus ófrið um sjávarútvegsmál.

Mig langar að vitna til tveggja greina. Önnur birtist í Fiskifréttum 26. maí og höfundur hennar er forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Fyrirsögnin er „Gríðarleg vonbrigði“. Svo birtist viðtal í Fiskifréttum við Sævar Gunnarsson, formann Sjómannasambands Íslands, og ég ætla að fá að vitna beint í það, með leyfi forseta, „Allt stefnir í að sjómennska verði hlutastarf“:

„Þessi frumvörp eru með ólíkindum illa unnin. Við nánari lestur sést að þarna rekur sig hvað á annars horn.“

Þessir aðilar voru í sáttanefndinni. Þessir aðilar áttu hlut að þeirri sögulegu sátt sem náðist hér og kemur fram í þeirri skýrslu sem hópurinn skilaði í september sl. Ég fylltist von í gær þegar ég sat undir þessum umræðum og hlustaði á 1. þm. Suðurk., hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, í andsvari. Með leyfi forseta langar mig að vitna beint í hann:

„Það er ekkert frávik frá stefnu neins, þetta er bara spurning um aðra útfærslu sem er byggð á sátta- og samningaleiðinni sem við náðum í nefndinni. Fyrr mætti aldeilis vera ef menn hefðu ekki farið eftir henni.“

Ég fylltist gleði þegar 1. þm. Suðurkjördæmis sagði í ræðustól, eða ég túlka orð hans þannig, að hann ætlaði að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin drægi þessi frumvörp til baka, bæði tvö, því að þau eru alls ekki í anda niðurstöðu sáttanefndarinnar.

Ég held að ég endi þessi orð mín á að vitna í Landssamband smábátaeigenda til að undirstrika ósamkomulagið sem er við hagsmunaaðila í greininni og þá sem náðu niðurstöðu í sáttanefndinni:

„Frumvarpið er samið án minnstu aðkomu þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Sú vinnutilhögun er harla ólíkleg til að skapa sátt við þá sem þar eiga hlut að máli. Þó finna megi einstaka samhljóm“ — hlustaðu, hv. þingmaður — „við niðurstöður (Forseti hringir.) sáttanefndarinnar er langsótt að halda því fram að frumvarpið byggist á þeim niðurstöðum.“