139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka þær óskir að ráðherrar og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sitji hérna. Varaformaður situr hérna og þau hafa svo sem setið hérna talsvert af tímanum en þetta mál er þess eðlis að það væri fullkomlega eðlilegt að formaður nefndarinnar sæti hér allan tímann, fylgdist með og færi í andsvör eftir því sem við ætti ef viðkomandi teldi það æskilegt. Einnig þyrfti auðvitað ráðherra sjávarútvegsmála að vera yfir umræðunni. (Gripið fram í.)

Það væri líka áhugavert og kannski nauðsynlegt að forsætisráðherra sæti hérna í umræðunni og tæki jafnvel til máls, ekki síst í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hún hefur gefið á vettvangi fjölmiðla en lítið aftur á móti hér í þinginu, ekki síst í ljósi þess að því hefur verið fleygt að fyrst og fremst forsætisráðherra berji það áfram (Forseti hringir.) að þessi mál skuli fara í gegn. Þess vegna (Forseti hringir.) virðist sem vilji annarra flokksmanna, bæði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, (Forseti hringir.) sé blendinn.