139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við viðveru hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Menn verða að eiga það sem þeir eiga og hæstv. ráðherra hefur verið við umræðuna, setið samviskusamlega við hana og fylgst með henni. Þó það nú væri, hér er mælt fyrir frumvörpum sem hann er flutningsmaður að. Hins vegar hef ég gert athugasemdir við það að hæstv. fjármálaráðherra taki ekki til máls og sjáist ekki í þessari umræðu. Í fyrsta skipti í þingsögunni, hygg ég, er lagt fram stjórnarfrumvarp frá einum ráðherra í ríkisstjórn þar sem fyrir liggja gögn frá öðrum hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, í þessu tilviki hæstv. fjármálaráðherra, þar sem fram koma upplýsingar um að frumvarpið sem um ræðir brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár. Mér finnst það lágmarkskurteisi af hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að hann mæti til umræðunnar, standi fyrir máli sínu og geri (Forseti hringir.) grein fyrir því (Forseti hringir.) í hverju (Forseti hringir.) hann telur (Forseti hringir.) að þetta frumvarp brjóti gegn stjórnarskrá.