139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Af hverju erum við að kalla eftir hæstv. forsætisráðherra? Meðal annars út af því atriði sem við höfum margoft rætt hér, umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem gefur mjög sterklega til kynna að það frumvarp sem við erum að ræða stangist á við stjórnarskrá. Mér er spurn: Hvernig beitti formaður Samfylkingarinnar sér innan þingflokksins? Hvernig beitti hún sér innan ríkisstjórnar? Þvingaði hún fram frumvarp til að leggja það fyrir þingið þrátt fyrir þessar makalausu ábendingar frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins? (Gripið fram í.) Er það þannig sem forsætisráðherra vill vinna, að við ræðum hér frumvarp sem verulegur efi er um að standist stjórnarskrá? Ég vil gjarnan fá þetta upplýst af hálfu forsætisráðherra sem er forustumaður ríkisstjórnarinnar og forustumaður enn sem komið er stærsta stjórnmálaflokks landsins.