139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr líka út í tillögur um að hafa sérstakt ákvæði sem lýtur að smærri bátum í strandveiðum. Ég tel að fyrir því séu ákveðin rök, sem eru tilgreind í frumvarpinu, að þessir minni bátar þurfi ekki að keppa með sama hætti við hina stærri báta í strandveiðum.

Ég treysti líka sjómönnum til að axla ábyrgð á því hvenær þeir skuli sækja sjóinn, enda hafa strandveiðarnar gengið mjög vel hvað það varðar og ekki verið um slys að ræða. Við skulum vona að svo verði áfram.

Ég get hins vegar tekið undir áhyggjur hv. þingmanns af styrk Landhelgisgæslunnar (Forseti hringir.) til að sinna þessari eftirlits- og öryggisþjónustu. (Forseti hringir.) Ég deili þeim áhyggjum í sjálfu sér, en (Forseti hringir.) ábyrgðin er líka hjá sjómönnunum.