139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að hæstv. ráðherra skyldi ekki svara mér þeirri spurningu sem ég spurði hann tvisvar um, það er hvort haft hafi verið eitthvert samráð við Hafrannsóknastofnun um það hvort óhætt væri að gera þetta á þessu fiskveiðiári án þess að það hefði áhrif á stofnstærð þorsksins.

Hæstv. ráðherra kom inn á þriggja tonna bátana sem eru settir inn með þessum ákvæðum og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. þingmenn að gera sér grein fyrir því atriði. Ég er búinn að stunda sjó í nokkuð mörg ár og þekki þetta allt saman. Þegar menn eru með sóknarmarkskerfi með svona smærri bátum eru þeir, eins og hæstv. ráðherra sagði, ekki að keppa lengur við hina stærri, en þá munu menn fara að framleiða báta inn í þennan flokk. Það er alveg fyrirséð hvað mun gerast. Það þekkjum við af sögunni. Við þurfum ekki að deila um það. Það munu verða smíðaðir bátar inn í þennan flokk ef hann hefur eitthvað rýmri heimildir en hinir. Þannig að sama staðan mun koma upp. Þegar menn eru að keppa í sóknarmarki er það ekki boðlegt að gera það á þann veg að minnka skipin, bæði út frá öryggissjónarmiðum og eins út af meðferð afla. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir áhyggjur (Forseti hringir.) mínar af þyrlumálum Landhelgisgæslunnar. Það þætti ekki boðlegt (Forseti hringir.) ef sjúkrabíllinn kæmist í þriðja hvert útkall til að koma (Forseti hringir.) fólki upp á spítala, eins og sjómenn þurfa að búa við í dag.