139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég komst ekki til að svara seinni hluta spurningar hv. þingmanns hér áðan þegar hann spurði hvernig mér litist á þær hugmyndir Framsóknarflokksins að setja þetta á fiskvinnsluna, það er fiskvinnslukvótann. Ég er tilbúinn að skoða þessa hugmynd og ræða hana. Það virkar þannig í dag að þegar byggðakvóta er úthlutað verður að vinna tvöfalt meira magn í viðkomandi byggðarlagi, í þeim fiskvinnslustöðvum sem þar eru. Þannig að það virkar að sumu leyti á þann veg.

Ef menn vilja hins vegar skapa ávinning fyrir þær fiskvinnslustöðvar sem eru að vinna fiskinn hér heima, sem er kannski eðlilegt, þá held ég að það sé skynsamlegri leið að gera það í gegnum útflutningsálagið, ef menn hafa þá skoðun á hverjum tíma, vilji þeir gera það. Ég held að það sé réttari leið að gera það þannig, ef menn hafa þær hugmyndir að ívilna á þann veg. Þetta gæti líka orðið dálítið flókið. Ef menn landa til að mynda á svæðum þar sem fiskur er mikið fluttur í burtu — það er eðlilegt að menn sérhæfi sig í vinnslu — þá mundu menn (Forseti hringir.) fara aftur á bak. En þetta er allrar athygli vert.