139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur mikla reynslu af sjávarútvegi. Mig langar til að spyrja hann út í þetta frumvarp sem ég er búinn að þaullesa og sé engin markmið með. Sá hv. þingmaður einhver markmið með þessu frumvarpi? Sér hann til hvers menn eru að koma með þessar breytingar og hverju þeir ætla að ná fram með því?

Síðan langar mig til að spyrja hann: Hve margir bátar geta fengið strandveiðileyfi? Eru engin efri mörk á því? Gætu komið þúsund eða 10 þús. bátar sem eru undir þrem tonnum? Ég hef miklar áhyggjur af því.

Ég spyr enn fremur hv. þingmann: Hvernig eru þessar litlu skeljar? Ég reikna ekki með að það sé stór áhöfn á þeim. Hvað eru margir menn í áhöfn á svona litlum bátum eða skeljum? Og er hægt að koma við öryggisbúnaði í þeim, örugglega ekki björgunarbát, en er hægt að koma einhverju fyrir í svona litlum bátum?

Svo finnst mér hv. þingmaður sýna oftrú á Landhelgisgæslunni. Segjum að litlar skeljar séu í kappi fyrir utan Vestfirði, menn að keppast við, svona 600–700 skeljar, og það kemur áhlaup eins og menn þekkja að getur gerst. Hvernig í ósköpunum á þá Landhelgisgæslan, þó að hún væri útbúin bestu þyrlu sem getur þá ekki flogið í þessu óveðri og jafnvel með bestu skipum, að geta tínt upp 500–600 báta í vandræðum?